Viðskipti innlent

Samfélagsmiðlar fjölga ferðamönnum

Starri Freyr Jónsson skrifar
"Samfélagsmiðlar eru nútíðin og framtíðin,“ segir Súsanna Rós Westund hjá ferðaþjónustunni Iceland is HOT.
"Samfélagsmiðlar eru nútíðin og framtíðin,“ segir Súsanna Rós Westund hjá ferðaþjónustunni Iceland is HOT. mynd/gva
Ferðaþjónusta í alþjóðlegu umhverfi er ekki auðveldasta starfsumhverfið sem lítil íslensk fyrirtæki kjósa sér. Mörg þeirra hafa þó náð ágætum árangri, ekki síst með nýtingu samfélagsmiðla til að kynna þjónustu sína erlendis.

Eitt þeirra er ferðaskrifstofan Iceland is HOT sem einbeitir sér að erlendum ljósmyndarahópum sem koma til landsins. Framkvæmdastjóri þess, Súsanna Rós Westund, stofnaði ferðaskrifstofuna með tvær hendur tómar eftir að hafa misst starf sitt árið 2011. „Ég hafði lengi unnið í ferðaþjónustu og aflað mér góðra tengsla. Ferðaþjónustan er snúin, sérstaklega þegar fjármagnið er af skornum skammti, en ég sló samt til.“

Súsanna segir vel hafa gengið að vekja athygli á fyrirtækinu erlendis innan þeirra hópa sem hún stílar inn á. „Ég hef til dæmis nýtt Twitter og LinkedIn mikið. Á Twitter hef ég tvær áskriftir, annars vegar @IcelandisHot og hins vegar @CometoIceland og er með um 15.000 fylgjendur. Þegar ég er dugleg á Twitter sé ég hvernig heimsóknir aukast á vef fyrirtækisins og gestir dvelja þar lengur.“

En þótt Twitter hafi gengið vel segir hún LinkedIn hafa reynst henni enn betur. „Linkedin er alþjóðlegur samfélagsvefur þar sem fagaðilar ýmissa greina birta grunnupplýsingar sínar, reynslu og tengsl. Þar hef ég tengst um 4.000 einstaklingum sem starfa á einn eða annan hátt í ferðaþjónustu og sölu- og markaðsmálum í heimalandi sínu. Þessi tengsl hafa leitt til samninga um ýmis verkefni fyrir okkur.“

Súsanna Rós segir mikla vakningu hafa orðið undanfarið hjá fyrirtækjum í nýtingu samfélagsmiðla. „Flestir nota Facebook, Twitter, YouTube, Instagram og Pinterest. Þó eru enn nokkrir sem telja þá tímaeyðslu. Það finnst mér vera rangt viðhorf því samfélagsmiðlar eru nútíðin og framtíðin. Þeim fyrirtækjum, sem tileinka sér samfélagsmiðlana fljótt, mun ganga betur í samkeppninni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×