Viðskipti innlent

Tveir svanir á skrifstofu forstjóra FME

Haraldur Guðmundsson skrifar
Stofnunin flutti í september 2011 í nýtt leiguhúsnæði við Katrínartún 2 í Reykjavík.
Stofnunin flutti í september 2011 í nýtt leiguhúsnæði við Katrínartún 2 í Reykjavík. Vísir/Vilhelm
Fjármálaeftirlitið (FME) keypti í september tvo fundarstóla fyrir skrifstofu Unnar Gunnarsdóttur, forstjóra stofnunarinnar, sem kostuðu samtals 792 þúsund krónur. Stólarnir eru þekkt hönnunarvara sem heitir Svanurinn. Þeir voru að sögn upplýsingafulltrúa FME síðasti liðurinn í 66 milljóna króna endurnýjun á húsbúnaði sem hófst árið 2011 þegar ríkisstofnunin flutti í nýtt húsnæði að Katrínartúni 2.

„Þessir stólar á skrifstofu forstjóra eru þeir einu þessarar gerðar hér í Fjármálaeftirlitinu,“ segir Sigurður G. Valgeirsson, upplýsingafulltrúi FME.

Í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Markaðarins segir að um 9,4 milljónir króna af heildarkostnaðinum hafi farið í kaup á nýjum húsgögnum fyrir ellefu einkaskrifstofur stjórnenda FME, eða um 857 þúsund krónur á hverja skrifstofu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, segir tölur FME staðfesta að þar ríki annar kúltúr en á mörgum öðrum ríkisstofnunum.

„Ég hef vakið athygli á því að á sama tíma og við höfum verið að draga saman í heilbrigðis-, mennta- og löggæslumálum þá hefur verið gríðarleg aukning til opinbers eftirlits og þar virðist ríkja önnur menning heldur en á þessum stofnunum sem ég var að vísa til sem sinna grunnþjónustu,“ segir Guðlaugur Þór.

Danski hönnuðurinn Arne Jacobsen hannaði Svaninn í lok fimmta áratugarins.
Hann segir framlög til FME hafa verið aukin um 198 prósent frá árinu 2007. Rekstur stofnunarinnar er fjármagnaður af eftirlitsskyldum aðilum, það er bönkum og tryggingafélögum, samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. 

„Þetta er eitthvert umhverfi sem ég sá svo sannarlega ekki sem heilbrigðisráðherra og get ekki séð rökin fyrir af hverju þarf að ganga fram með þessum hætti. Eftirlit er mikilvægt en það verður að gera kröfur til þess að menn fari þar vel með almannafé, þar eins og annars staðar,“ segir Guðlaugur Þór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×