Innlent

„Óhugnanlegt hvað ég get breyst fljótt.“

Edda Sif Pálsdóttir skrifar
Kristinn Rúnar Kristinsson var þrettán ára þegar hann fann fyrst fyrir þunglyndi. Við tóku erfið ár þar sem hann lokaði sig á stundum inni í herbergi og upplifði myrkasta svartnætti. Þrátt fyrir það var hann valinn húmoristi Kópavogsskóla í tíunda bekk enda virkaði hann alltaf hress og kátur. Síðasta niðursveifla var í janúar 2011. Lyf dugðu þá ekki lengur til og Kristinn fór í níu raflostsmeðferðir á níu vikum. 

En þar sem Kristinn er greindur með geðhvarfasýki fylgir líka manía og tvisvar sinnum hefur hann farið í maníu, eins og hann orðar það sjálfur. Síðast núna í haust eftir að hann opnaði sig um sjúkdóminn á Facebook. Hann fékk góð viðbrögð við skrifunum og vellíðanin og orkan helltist yfir hann. 

„Ég tók æfingar eins og ég væri að undirbúa mig fyrir meistaradeildarleik í fótbolta eða NBA leik og var jafnvel kominn með hugmyndir um að fara á árssamninga og vikusamning í NBA. Ég hef hæfileikana alveg í mér en þetta var auðvitað bara rugl,“ segir Kristinn. 

Á tólf dögum rauk hann upp í hæstu hæðir og því fylgdu ofskynjanir og fleiri einkenni. Að lokum fór það svo að hann var handtekinn af lögreglunni. 

„Ég hleyp út hjá ljósunum við Smáralind og hugsaði bara nú þarft þú bara að fara að stjórna umferðinni. Þú ert eltur og ef þú ætlar að búa úti í heimi þá verður þú að geta stjórnað þessari umferð hérna svo þú getir labbað óáreittur.“  



Tónleikar til styrktar „heilabrotnum“ verða haldnir í Háskólabíói annað kvöld kl. 20. Miðar eru seldir á miði.is og í versluninni Öxney við Klapparstíg.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×