Skoðun

Koma jólin á fasteignamarkaði í ár?

Sigríður Hrund Guðmundsdóttir skrifar
Það er engu líkara en jólin séu þegar komin hjá mörgum. Það mátti heyra á flestum sem hringdu inn í síðdegisþátt á föstudag, að þeir voru almennt ánægðir með skuldaleiðréttinguna. Það er afrek útaf fyrir sig að svo almenn og víðtæk efnahagsaðgerð verði nú loksins að veruleika.

Hækkandi fasteignaverðHeimilin munu án efa njóta góðs af þessari aðgerð, beint í formi lækkunar á greiðslubyrði og óbeint þar sem þetta er mikil innspýting inn í hagkerfið. Yngra fólk er stærsti hópurinn sem fær leiðréttingu.

Sá hópur er á barneignaraldri og eflaust hafa margir þurft að stækka við sig en ekki treyst sér til þess. Ef þessi hópur fer nú að hugsa sér til hreyfings hefur það keðjuverkandi áhrif á fasteignaverð.

Undanfarin misseri hafa minnstu eignirnar selst vel og hækkað hlutfallslega meira en aðrar, en svokallaðar millieignir hafa setið eftir. Betri greiðslugeta, aukin bjartsýni og meira atvinnuöryggi eru forsendur þess að fólk ræðst frekar í fasteignakaup. Það hefur jákvæð áhrif á allan fasteignamarkaðinn.

Almenn jákvæð efnahagsaðgerðSpáð er auknum hagvexti á næsta ári. Með skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar verður innspýting inn í hagkerfið allt að 150 milljarðar á næstu 3 árum.

Það ætti að hafa jákvæð áhrif á einkaneyslu sem kallar á fleiri störf og sennilega betri kjör. Hvað verður um þessa 80 milljarða sem fara í beinar höfuðstólsleiðréttingar strax á næsta ári? Íbúðalánasjóður, bankar og lífeyrissjóðir fá þessa peninga til sín og þurfa að koma þeim aftur í ávöxtun.

Fjárfestingartækifæri eru mjög takmörkuð fyrir lífeyrissjóði, jafnvel þó gjaldeyrishöftunum verði aflétt, því þeir verða líklega síðastir til að fá að fara með peningana úr landi. Bankar og aðrar lánastofnanir þurfa að koma peningunum aftur í vinnu með útlánum.

Skapist meira framboð af lánsfé en eftirspurn, þá eru komnar forsendur fyrir því að vextir lækki loksins… að því gefnu að Seðlabankinn grípi ekki inn í. Mikið væri nú gott að sjá vexti lækka. Þá fengju heimilin og atvinnulífið loksins tækifæri til að fjármagna sig með minni vaxtakostnaði.

Fólk myndi þá ráða miklu betur við afborganir af húsnæðislánum og eiga auðveldara með að standast greiðslumat. Það hefði einnig jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn.

Nú á Seðlabankinn leikinn og þarf að lækka vexti til að hagsældin sem nú er framundan skili sér til heimilanna, í formi betri lífskjara.




Skoðun

Sjá meira


×