Innlent

Óljósar reglur um gjafir til bæjarfulltrúa

Linda Blöndal skrifar
Sveitarfélög eiga samkvæmt lögum að setja sér siðareglur og haga störfum sínum í samræmi við þær, þar segir m.a.„öllum kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn og nefndum og ráðum sem sveitarstjórn skipar ber að haga störfum sínum í samræmi við settar siðareglur.“

Í siðareglum stærstu sveitarfélaga landsins mega bæjarfulltrúar ekki þiggja greiða eða gjafir, en aðeins ef almennt má líta á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu. Slíkt er túlkunaratriði í hvert sinn og því er gefið leyfi fyrir gjafir ef engin hagsmunatengsl eru til staðar.

„Óverulegar“ gjafir ekki leyfðar

Í sumum reglnanna má ekki þiggja gjafir sem teljast  „óverulegar“ eins og það er nefnt. Sum staðar er þó sett þak á verðmæti gjafa, eins og hjá Reykjavíkurborg sem skyldar borgarfulltrúa að gefa upp gjafir yfir fimmtíu þúsund króna virði. Hafnarfjörður leggur blátt bann við að þiggja gjafir og skýrir reglurnar ekki frekar.

Götóttar reglur

Tónleikamiðar til allra bæjarfulltrúa Kópavogs, maka þeirra og átta starfsmanna á tónleika Justin Timberlake í Kórnum í Kópavogi í síðasta mánuði vekur spurningar um hvort siðareglur séu götóttar gagnvart misnotkun. Um leið er spurt hvort að hægt sé að hafa skotheldar siðareglur, þær geti aldrei leyst siðferðileg vandamál einar og sér.

Bæjarsjóður fékk í nettó tekjur af tónleikunum 5,5 milljón frá Senu á meðan veltan af tónleikunum voru 400 milljónir. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 var greiðsla Senu fyrir Kórinn mjög lág miðað við hvað forsvarsmenn Egilshallar kröfðust.



Treysta bæjarfulltrúum

Allir bæjarfulltrúar Kópavogs þáðu boð á tónleikana.

Pétur Hrafn Sigurðsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi sagðí í samtali við Stöð 2 hafa litið svo á að tónleikarnir væru bara enn einn viðburðurinn sem hann fengi ósk um að mæta á. "Og að sjálfsögðu gerði ég það. Nokkrum vikum áður fór á myndlistarsýningu og var ekkert gagnrýndur sérstaklega fyrir það."

Um samninginn við Senu segir Pétur: "Samningarnir voru löngu gerðir áður en boðsmiðarnir voru veittir, í tíð fyrri bæjarstjórnar. Ég er nýr í bæjarstjórn og hafði enga aðkomu að því í sjálfu sér. Það verður bara að treysta bæjarfulltrúm hverju sinni um hvað þykir eðlilegt og hvað þykir ekki eðlilegt, í þessum sem og svo mörgu öðru".

Þarf ekki endurskoðun

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogsbæjar hefur ekki viljað svara því hvort að siðareglur hafi verið brotnar og Pétur segist ekki telja að það þurfi að endurskoða þær.  

Ekkert eftirlit er almennt haft með framgangi gagnvart siðareglum og síðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur ekki haft slíkt hlutverk síðan hún hóf störf árið 2012. Í lögum segir þó að nýkjörnar bæjarstjórnir eigi að skoða siðareglurnar og skila af sér staðfestingu um það til ráðuneytis sveitarstjórnarmála. 

Uppfært kl 22:18.

Athugasemd við fréttina hefur borist frá Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs:

„Það er ósvífið að segja í frétt Vísis að ég hafi ekki viljað svara því hvort að siðareglur hafi verið brotnar þegar bæjarfulltrúar og nokkrir starfsmenn Kópavogsbæjar fengu miða á tónleika með Justin Timberlake í Kórnum. Ég svara þessari spurningu í svari við fyrirspurn um efnið, svari sem lá fyrir á mánudag og var þann sama dag sent blaðamanni Fréttablaðsins. Svarið hefur einnig verið sent fréttastjóra Vísis og fréttamanni Stöðvar 2. Blaða- og fréttamönnum 365 átti því að vera fullkunnugt um afstöðu mína, sem er sú að siðareglur hafi ekki verið brotnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×