Michael Schumacher er sagður bregðast við þegar hann heyrir rödd eiginkonu sinnar og að hann geti andað óstuddur í ákveðinn tíma.
Þetta kemur fram í þýska blaðinu Bild í dag en í gær var tilkynnt að Schumacher væri ekki lengur í dái og hafi verið fluttur af sjúkrahúsinu sem hann hefur dvalist á síðan hann lenti í alvarlegu skíðaslysi í lok síðasta árs.
„Rödd Corinnu hefur mun meiri áhrif á hann en raddir annarra,“ segir í frétt Bild en Corinna er eiginkona Schumacher.
Schumacher er sagður hafa lést um tæp 20 kg síðan hann var lagður inn á sjúkrahúsið en enn er margt óvitað um batahorfur ökuþórsins þýska.
Gary Harstein, læknir sem starfaði fyrir Formúlu 1 frá 2005 til 2007, hefur til að mynda verið gagnrýninn á fulltrúa Schumacher og þær upplýsingar sem þeir hafa látið frá sér á undanförnum vikum og mánuðum.
Í apríl birtist yfirlýsing frá fulltrúum Schumacher þar sem kom fram að Schumacher hefði sýnt viðbrögð við áreiti og að af því mætti draga þá ályktun að hann hafi vaknað úr dái sínu fyrir nokkrum mánuðum síðan.
„Eftir því sem tíminn líður verður sífellt ólíklegra að Michael muni taka verulegum framförum,“ var haft eftir Harstein.