Skoðun

Pólitísk ábyrgð

Þorbergur Þórsson skrifar
Undanfarið hefur nokkuð verið minnst á hugtakið pólitísk ábyrgð í opinberri umræðu. Tilefni umræðunnar er reyndar heldur dapurlegt. Hér er samt ekki ætlunin að fjalla um það, heldur aðeins svolítið um hugtakið sjálft. Sú pólitíska ábyrgð sem ég hef áhuga á, er ábyrgð sem stjórnmálamenn geta „axlað“, einkum og sér í lagi með því „að hætta“.

Sem dæmi um hvernig þetta hugtak er notað má hafa orð Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, í sjónvarpsfréttum 23. nóvember sl. en Helgi sagði þar að ábyrgð ráðherra væri tvenns konar, pólitísk og lagaleg. Eftirlitshlutverk Alþingis sneri að pólitísku ábyrgðinni, en ráðherra hefði „axlað“ hana „gagnvart þinginu með því að segja af sér“.

Margfróð vinkona mín hefur sagt mér að íslenska hugtakið „pólitísk ábyrgð“ geti ýmist merkt það sem kallað er „political accountability“ eða „political responsiveness“ í ensku máli. Í fræðilegri umræðu á íslensku sé ekki alltaf á hreinu hvort hugtakið sé átt við þegar pólitísk ábyrgð er nefnd. Þessi tvö ensku hugtök eru mjög ólík. Fyrra hugtakið (accountability) vísar til þess að kjörnir fulltrúar leggja fram stefnu eða ákvarðanir og standa og falla með ákvörðunum sínum. En síðara hugtakið (responsiveness) vísar til þess, ef ég skil það rétt, að fulltrúarnir verða beinlínis við kröfum kjósenda og starfa í samræmi við þær, en ekki endilega í samræmi við einhverja sérstaka eigin stefnu.

Ég held að þessi stjórnmálafræðilegu hugtök séu ekki það sem „pólitísk ábyrgð“ vísar til í almennri stjórnmálaumræðu um þessar mundir. Tilefni umræðunnar nú er að starfsmaður ráðherra braut af sér. Að sögn vissi ráðherra ekki af afbrotinu fyrr en seint og um síðir. Eftir að upp um það komst sat hann áfram í stól sínum um hríð en sagði svo af sér. Hér verður ekki séð að ráðherra hafi staðið og fallið með ákvörðunum sínum og stefnu, heldur fallið þegar upp komst um afbrot starfsmannsins.

Ég spurði góðan kunningja minn, sem er refur í pólitík, hvernig skilja bæri hugtakið pólitísk ábyrgð. Hann svaraði: „Er það ekki það, þegar manni finnst að andstæðingur sinn þurfi að segja af sér þegar hann hefur ekki brotið lög og mögulega ekki gert neitt siðferðilega ámælisvert?“ Ég svaraði honum strax: „Jú, einmitt!“ Mér fannst þetta fínt svar hjá honum, þótt það sé svolítið glannalegt. Og ég held að þetta sé að vissu leyti ágæt lýsing á því hvernig pólitísk ábyrgð getur virkað.

Margvíslegir kostir

Ólíkt stjórnmálarefnum, vini mínum, tel ég að það hafi margvíslega kosti að Alþingi geti dregið stjórnmálamenn til pólitískrar ábyrgðar fyrir axarsköft og mistök starfsmanna þeirra. Og að það hafi ýmsa góða kosti að stjórnmálamennirnir geti glatað ráðherraembættum sínum vegna slíkra mistaka starfsmanna, jafnvel þó að þeir sjálfir hafi ekki brotið lög eða orðið uppvísir að einhverju siðferðilega ámælisverðu í störfum sínum.

Sú regla er auðvitað í fullu gildi að það má aldrei hafa ráðherra fremur en aðra fyrir rangri sök. Þurfi ráðherra að víkja vegna afbrota eða mistaka starfsmanna liggur sökin auðvitað að verulegu leyti hjá þeim, ekki ráðherranum. Stjórnmálamenn sem eru svona óheppnir ættu að öðru jöfnu að fá fjölmörg önnur tækifæri í framhaldinu. Þá er rétt að muna, að ráðherrar koma yfirleitt ekki úr hópi hinna fátæku og smáðu í samfélaginu. Þeir eru alla jafna virtir og vinmargir og þeim standa margar dyr opnar.

Það eru til ýmis dæmi um það í almennri löggjöf, að menn beri ábyrgð á því sem aðrir gera. Þannig þekkist það í enskumælandi löndum, að veitingamenn þurfi að borga sekt, ef starfsmenn þeirra selja brennivín undir borðið, til dæmis á tímum þegar sala áfengis er bönnuð. Þá snýst málið alls ekki um að veitingamaðurinn hafi brotið af sér, heldur um að hann hafi hvatningu til þess að allt fari rétt fram á veitingastaðnum og að velja starfsfólk sem er ekki líklegt til að brjóta lögin.

Á sama hátt held ég að það kunni að vera gagnlegt fyrirkomulag, að þegar starfsmönnum ráðherra verður mjög illa á í starfi eða brjóta jafnvel af sér, geti ávallt komið til álita að ráðherrann þurfi að víkja þótt saklaus sé. Þetta getur verið mikilvægt aðhald fyrir ráðherrana sjálfa. Það getur líka gert þá stranga og hvatt þá til krefjast afdráttarlausrar hlýðni starfsmanna sinna við lögin sjálf og anda þeirra og þannig gert löghlýðni að enn sterkara leiðarljósi framkvæmdarvaldsins en ella.




Skoðun

Sjá meira


×