Skoðun

Kynslóðaósáttin – I Hluti

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Í kynningu á áformum ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar kom fram að aðgerðin væri liður í sátt á milli kynslóða. En svo er ekki raunin heldur hefur hið gagnstæða komið á daginn. Við nánari athugun á fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar ætlar hún að traðka á hagsmunum ungu kynslóðarinnar til að stuðla að meintri upprisu millistéttarinnar.

Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru váleg tíðindi fyrir ungt fólk og fremur til þess fallnar að kynda undir kynslóðaósætti en stuðla að kynslóðasátt. Ítrekað virðist vegið að leigjendum, námsmönnum, ungum fjölskyldum og þeim sem enn hafa ekki fjárfest í húsnæði til að standa við óraunhæf kosningaloforð um niðurgreiðslu húsnæðislána.



Ungt fólk sem er núna í grunn-, framhalds- og háskólanámi á ekki húsnæði. Ungt fólk sem lauk háskólanámi eftir hrun á ekki húsnæði. Þetta fólk mun bera hitann og þungann af 80 milljarða skuldaniðurfellingu sumra húsnæðiseigenda. Þrátt fyrir að búið sé að finna nýjar leiðir til að afla ríkissjóði 80 milljarða á að halda áfram að skera niður framlög til stofnana sem styðja við unga fólkið. Þar má nefna menntakerfið, fæðingarorlofssjóð, atvinnuskapandi menningar- og nýsköpunarsjóði og jafnframt virðist afskaplega lítið vera að gerast í málefnum leigjenda.

Fyrirhuguð stefna virðist ætla að byggjast á mögnuðum tilfærslum á eignum og gæðum frá tilvonandi kynslóðum til þeirra sem eiga. Ríkisstjórnin, með aðgerðum sínum, hættir á að tvístra þjóðinni þegar hún hefur mesta þörf á samstöðu og einhug. Ungt fólk hefur ekki áhuga á kynslóðaósætti eða átökum. En ef ríkisstjórnin hverfur ekki af braut sinni verður ekki frá því horfið.




Skoðun

Sjá meira


×