Innlent

Segir að konum stafi ekki meiri ógn af múslimum en öðrum hópum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Margrét segir að tölfræðigreiningarnar sýni að „hugmyndin um að konum stafi einhver sérstök ógn af múslimum frekar en öðrum hópum sé ekki á rökum reist.“
Margrét segir að tölfræðigreiningarnar sýni að „hugmyndin um að konum stafi einhver sérstök ógn af múslimum frekar en öðrum hópum sé ekki á rökum reist.“ Vísir/Getty
Niðurstöður tölfræðigreiningar sem Margrét Valdimarsdóttir gerði sýna að engin fylgni er á milli tíðni alvarlega ofbeldisbrota gegn konum og þess hversu margir múslimar búa í landinu. Margrét er doktorsnemi í afbrotafræði við City University of New York og birtir greininguna á vefsvæði sínu.

Margrét leggur út frá könnun MMR um það hversu margir Íslendingar eru á móti byggingu mosku. Margrét segir að andúð gegn múslimum sé ekki séríslenskt fyrirbæri og að hér líkt og annars staðar sé kynt undir ótta með því að vísa meðal annars til þess „að fjölgun múhameðstrúaðra innflytjenda muni leiða til skerðingar á kvenfrelsi og auka ofbeldi gegn konum.“

Margrét segir að þar sem hún hafi ekki fundið neina rannsókn sem kannaði „hvort hlutfall múslima í samfélagi hafi áhrif á ofbeldi gegn konum og stöðu þeirra“ hafi hún ákveðið að gera greiningu sjálf út frá tölfræðiupplýsingum frá nokkrum alþjóðastofnunum.

Niðurstöður greiningarinnar eru um margt áhugaverðar og virðast hrekja þá mýtu að ofbeldi gegn konum aukist eftir því sem hlutfall múslima af heildarfjölda íbúa er hærra. Margrét segir þetta meðal annars um niðurstöðurnar:

„Ég notaði mælinguna frá Sameinuðu þjóðunum og skoðaði sambandið á milli hlutfalls múslima innan þjóða og stöðu kvenna og fann veikt til miðlungs samband. Með öðrum orðum, í þeim löndum þar sem hátt hlutfall íbúa eru múslimar hefur staða kvenna tilhneigingu til að vera lök. Þetta samband hverfur þó þegar tekið er tillit til almennrar menntunar innan landsins, en almenn menntun hefur frekar sterk tengsl við jafnrétti kynjanna.“

Þá skoðaði Margrét einnig nokkur Evrópulönd með tilliti til hlutfalls múslima og stöðu kvenna og komst að því engin fylgni væri á milli þess, né hlutfalls múslima og alvarlegs ofbeldis gegn konum.

Margrét segir á vefsvæði sínu að tölfræðigreiningarnar sýni „hugmyndin um að konum stafi einhver sérstök ógn af múslimum frekar en öðrum hópum sé ekki á rökum reist.“

Hún segir það hins vegar rétt að konur verði frekar fyrir ofbeldi í löndum þar sem ójafnrétti er á milli kynjanna. Það skipti þó ekki máli hvort að í löndunum búi margir kristnir, múslimar eða fólk sem hefur annars konar trú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×