Innlent

Flokkur efasemdarmanna leysist upp á Evrópuþinginu

Atli Ísleifsson skrifar
Ítalinn Beppe Grillo hefur verið einn mest áberandi þingmaður EFDD.
Ítalinn Beppe Grillo hefur verið einn mest áberandi þingmaður EFDD. Vísir/AFP
Flokkur frelsis og beins lýðræðis (EFDD) á Evrópuþinginu hefur leysts upp eftir að lettneskur þingmaður skýrði frá því að hann hafi sagt skilið við flokkinn.

EFDD átti 48 fulltrúa á þinginu, þar á meðal Ítalann Beppe Grillo og fulltrúa UKIP, sjálfstæðisflokks Bretlands. Þingmenn þess eru miklir efasemdarmenn um Evrópusamrunann.

Ákvörðun Lettans Iveta Grigule þýðir að EFDD er ekki lengur skilgreindur sem þingflokkur þar sem þingmenn frá færri en sex aðildarríkjum eiga í honum sæti. Flokkurinn missir nú fjármagn, sæti í fastanefndum þingsins og aukinn ræðutíma í þinginu sjálfu.

Í frétt BBC segir að óljóst sé hvers vegna Grigule hafi tekið þá ákvörðun að yfirgefa flokkinn.

Evrópuþingið fer með löggjafarvald í ESB ásamt Ráðherraráðinu, en vægi þingsins í ákvarðanatöku hefur smám saman aukist síðustu ár, nú síðast með Lissabon-sáttmálanum.

751 þingmenn eiga sæti á Evrópuþinginu og sitja nú í sex mismunandi flokkum, auk þeirra sem sitja utan flokka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×