Innlent

Hljóðbókaframleiðsla blindra er þyrnir í augum höfunda

Jakob Bjarnar skrifar
Þórarni þykir einkennilegt að Hljóðbókasafnið geti að honum forspurðum tekið bók eftir sig ig lesið inn á hljóðbók að hætti hússins. En, Þóra Sigríður segir það mannréttindamál.
Þórarni þykir einkennilegt að Hljóðbókasafnið geti að honum forspurðum tekið bók eftir sig ig lesið inn á hljóðbók að hætti hússins. En, Þóra Sigríður segir það mannréttindamál.
Þórarinn Leifsson rithöfundur er ósáttur við það að bækur hans séu, að honum forspurðum, lesnar fyrir Hljóðbókasafnið. Þórarinn veltir í það minnsta upp þeirri spurningu á Facebook-vegg sínum: „Bókin mín er komin á hljóðbók. Enginn spurði, enginn lét mig vita og ég fæ ekki einu sinni afrit sent til mín. Mér þætti eðlilegt að höfundar bóka fengju að minnsta kosti fría áskrift. Eða hvað?“

Ýmsir höfundar fagna þessari stöðufærslu Þórarins, og nokkrir taka undir með honum á athugasemdakerfinu. Einn þeirrar er Ævar Örn Jósepsson: „Það væri samt voða gott ef ríkið niðurgreiddi þetta nógu vel til að höfundar fengju eitthvað fyrir sinn snúð - þessi eingreiðsla sem hent er í okkur er ekki uppí nös á ketti.“

Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður Hljóðbókasafnsins, segir árlegt að þessi umræða skjóti upp kollinum, en hér sé einfaldlega um mannréttindamál að ræða, safnið starfi lögum samkvæmt og þau lög kveða á um að Hljóðbókasafnið geti tekið bækur og lesið þær inn til afnota fyrir þá sem ekki geta nýtt sér ritað efni, án þess að spyrja kóng né prest.

Ekkert samráð við höfunda

Á Facebook-vegg Þórarins spruttu upp fjörlegar umræður í kjölfar færslu hans sem í stuttu máli snúast um að aðgangur sé skertur að hljóðbókunum, þessar bækur eru aðeins ætlaðar blindum og sjóndöprum og því sé ekki verið að græða á þessu. Þetta virðist vera „réttur ríkisins“ að taka bók og gera hana aðgengilega hópum sem ekki geta lesið – án þess að borga fyrir það eða allavega er greiðslan eitthvað lítil. Þá er dregið í efa að réttlætanlegt sé að aðeins blindir og sjónskertir hafi þennan aðgang að bókunum. Einnig er gagnrýnt að höfundar fái ekki að velja þann sem les bókina inn á hljóðbók, að höfundur sé ekki látinn vita eða haft samráð við hann.

En, þá ber til þess að líta að samkvæmt 19. grein höfundalaga er heimilt að prenta og gefa út með blindraletri bókmenntaverk og tónverk, sem út hafa verið gefin. Einnig má ljósmynda þau til notkunar í heyrnar- og málleysingjaskólum. Þessi lög um höfundarétt eru frá árinu 1972. Síðan hefur neyslumynstur breyst til mikilla muna og eru hljóðbækur orðnar vinsælar meðal þeirra sem sjá. Lögin hafa nokkrum sinnum verið uppfærð, síðast 2010 og þar segir að höfundar eigi rétt á sanngjörnum bótum vegna slíkrar eintakagerðar.

Mannréttindamál

Þóra Sigríður forstöðumaður Hljóðbókasafnsins segir þetta ekki nýja umræðu. En safnið er fyrir blinda og sjónskerta og þá sem ekki geta lesið prentað mál. „Þetta er  hugsað sem mannréttindaaðgengi, að það sé sjálfsagður réttur fólks að geta fengið aðgang að upplýsingum og bókmenntum þó það geti ekki lesið prentað mál. Hljóðbókasafnið starfar samkvæmt lögum og þar segir að hlutverk þess sé að útvega þessum hópi aðgang að prentuðu máli eða veita þeim bókasafnsþjónustu eins og öðrum.“

Þóra Sigríður vísar í 19. grein höfundalaga, sem er undanþága þar sem segir að „við megum taka allt efni sem er prentað mál og breyta því yfir á það form sem hentar blindum, sjónskertum eða öðrum sem ekki geta nýtt sér prentað mál. Þar með getum við tekið hvað sem er og breytt því án þess að tala við kóng eða prest. Ég veit að sumir höfundar voru ekkert sérlega ánægðir þegar þessi klausa var sett inn í höfundalögin en þetta er samkvæmt norrænni fyrirmynd. Þetta er svona á öllum Norðurlöndunum, hugsað sem réttur blindra, að það sé hægt að vinna slíkt efni án allra vandkvæða.“

82 milljónir frá ríkinu

Forstöðumaðurinn segir það vissulega umdeilt að aðeins þeir sjónskertu hafi aðgengi að safninu en þetta sé viðkvæmt mál, því ef efni safnsins kæmist í ólögmæta dreifingu á netinu þá sé voðinn vís. Sem gæti orðið til að setja þessa mikilvægu lagaheimild í uppnám – að um sé að ræða misnotkun á safninu. Hljóðbókasafnið reynir að nýta sér þessa heimild sem allra best og Þóra Sigríður segir það einfaldlega svo að ef þau ætluðu sér að tala við hvern einasta höfund og spyrja hver ætti að lesa þá þyrfti að setja upp samskiptaskrifstofu sem hefði í nægu að snúast. „Við hefðum ekki tíma til að lesa. Ég skil alveg að mönnum finnist þetta skrítið, að það sé hægt að taka bækurnar þeirra og lesa þær, en þannig er það nú bara.“

Hljóðbókasafnið fær 82 milljónir frá ríkinu á þessu ári. „Og svo erum við að betla sértekjur, sem eru hátt í 10 milljónir. Við erum í samstarfi við Norðurlöndin og fáum þaðan verðmætt efni án þess að  borga mikið fyrir það. Fáum efni sem er þróað annars staðar. Þá fáum við um 1.500 titla frá Bretlandi.“ Þetta eru því um 8.500 titlar sem eru til á Hljóðbókasafninu auk aðgengis að hljóðbókum frá Norðurlöndum. Þeir sem eru virkir og nýta safnið eru 7.200 en þar af eru 70 prósent lesblindir nemendur sem einnig hafa aðgang að safninu. „Við erum með svona um 30 frílans lesara sem fá 5.800 fyrir hvern innlesinn klukkutíma. Það er helmingur af því sem borgað er fyrir slíkt í Noregi. En, það fara um tíu til tólf milljónir í lestur og um svona 5 til 7 milljónir fara í höfundarréttargjöld,“ segir Þóra Sigríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×