Innlent

Bíll óökufær eftir aftanákeyrslu: Leikskóladrengur undir stýri

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd/GettyImages
Lögregla fékk óvenjulegt verkefni fyrir nokkru síðan þegar tilkynnt var um að ökutæki hefði skemmst við að bakka á kerru og að ökumaðurinn hefði hlaupið af vettvangi. Verkefnið er ekki óvenjulegt í sjálfu sér en ökumaður bílsins reyndist ungt berfætt barn í náttfötum.

Atvikið átti sér stað snemma morguns og hélt lögregla á staðinn um leið og tilkynning barst. Rannsókn leiddi í ljós að barnið var drengur sem enn var í leikskóla. Hann hafði náð í lyklana að bíl foreldra sinna og ákveðið að leggja af stað í ökuferð sem endaði þó ekki betur en að hann bakkaði á kerru. Þess vegna hljóp drengurinn rakleiðis heim. Þar vaknaði faðir hans við grát hans þar sem hann stóð berfættur fyrir utan heimilið. Bíllyklarnir voru að sögn föðurins geymdir á tryggum stað og er því ljóst að drengurinn þurfti að hafa fyrir því að ná þeim.

Drengurinn slasaðist ekki en var engu að síður færður á slysadeild til athugunar. Bíllinn var hins vegar óökufær.

Sagan var birt á facebook síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Hana má sjá í fullri lengd hér að neðan.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×