Innlent

Óprúttnir aðilar biðja um notendanafn og aðgangsorð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Borið hefur á því að viðskiptavinir banka hafi fengið tölvupósta í vikunni. Þar eru þeir beðnir um að smella á tengil inni í póstinum og gefa upp notendanafn og aðgangsorð að netbönkum.

Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu frá netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, Ríkislögreglustjóra, Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankanum og MP banka.

Almenningur er hvattur til að vera á varðbergi gagnvart slíkum tölvupósti og alls ekki smella ekki á slíka tengla.

„Bankar og fjármálafyrirtæki biðja viðskiptavini sína aldrei um notendaupplýsingar í gegnum tölvupóst, né hvetja þá með þeim hætti til að skrá sig inn í heimabanka. Gott er að senda grunsamlega tölvupósta áfram til viðkomandi banka til upplýsingar fyrir starfsfólk hans og eyða síðan viðkomandi skeyti tafarlaust.“

Þá segir í tilkynningunni að fólk sé hvatt til að fara ekki í netbanka nema í gegnum vefsíður viðkomandi banka eða fjármálafyrirtækis.

Hafi einhverji smellt á hlekk úr tölvupósti eins og þeim sem er lýst hér að ofan, eru þeir hvattir til að skipta um lykilorð í netbankanum.

Að lokum er bent á þrjú atriði sem gott sé að hafa í huga fyrir þá sem notist við netbanka.

• Notendur eiga aldrei að smella á grunsamlega tengla í tölvupósti. Gott er að hafa það fyrir reglu að tengjast netbanka eingöngu í gegnum heimasíðu viðkomandi banka. Þetta skal einnig hafa í huga þegar um viðkvæmar upplýsingar eða viðskipti af öðru tagi er að ræða.

• Bankar senda aldrei viðskiptavinum sínum tölvupóst þar sem notendur eru beðnir um að uppfæra upplýsingar um sig með því að smella á hlekk í skeytinu eða senda upplýsingar með því að svara póstinum. Þetta á t.d. við um notendanafn, lykilorð eða greiðslukortaupplýsingar.

• Þegar farið er inn í netbanka ber að gæta þess að slóðin í vafra sé á öruggu vefsvæði, það sést með því að ganga úr skugga um að https:// sé fremst í vefslóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×