Innlent

Telur að lækkun vörugjalda skili sér ekki til neytenda

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ telur nær útilokað að lækkun vörugjalda á matvæli skili sér til neytenda. Samkvæmt útreikningum Rannsóknarseturs verslunarinnar hækkar matarkarfan um tæpar 42 þúsund krónur á ári vegna hækkunar á virðisaukaskatti. 

Hjá tekjulægsta hópnum hækkar matarkarfan um rúmar 33 þúsund krónur á ári samkvæmt Rannsóknasetri verslunarinnar og hjá tekjuhæsta hópnum um 53 þúsund krónur.

Útreikningar rannsóknasetursins taka aðeins mið af hækkun virðisaukaskatts á matvæli en ekki er tekið tillit til boðaðra mótvægisaðgerða sem fela í sér lækkun vörugjalda.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ telur litlar líkur á því að lækkun vörugjalda skili sér til neytenda.

„Við höfum áhyggjur af því að sá hluti þess sem er í formi hækkunar á matarskatti skili sér til heimilanna. Það er þá aukin útgjöld. En við höfum verulega sannfæringur fyrir því að lækkunartilefni vörugjalda hverfi einfaldlega í aukinn hagnað og álagningu heildsala, framleiðenda eða verslunar,“ segir Gylfi.

Hann segir að það verði mjög erfitt að halda uppi verðlagseftirliti til að tryggja að lækkun vörugjalda skili sér til neytenda.

„Það er mjög torvelt að mæla áhrif vörugjalda. Þetta gerist á mörgum liðum. Það er ekki bara smásalan sem er ábyrg fyrir vörugjöldum, heldur heildsalan og framleiðendur. Það er mjög erfitt að staðsetja ábyrgðina á því hvar það hverfur. Það er engin skipulögð verðlagskönnun á heildsölustigi á Íslandi og það verður auðvitað sagan endalausa eins og gerðist þegar þessu var breytt fyrir nokkrum árum. Enginn vildi axla ábyrgð á því hvar það hvarf. Menn vísuðu hver á annan. Geta okkar til þess að veita  aðhald er mjög takmörkuð,“ segir Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×