Innlent

Töldu skoðanir nemandans í andstöðu við stefnu skólans

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Guðbjörg er skólameistari Framhaldsskólans í Mosfellssbæ.
Guðbjörg er skólameistari Framhaldsskólans í Mosfellssbæ.
Skólastjórn Framhaldsskólans í Mosfellsbæ reyndi að koma í veg fyrir að nemandi, sem sagðist opinberlega vera fylgjandi lögleiðingu kannabiss, byði sig fram í trúnaðarstörf fyrir nemendafélag skólans, eins og vísir greindi frá fyrr í dag.

Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) fundaði með skólastjórnendum vegna ákvörðunarinnar. Úr varð að skólastjórnin hætti við bannið og gat  nemandinn boðið sig fram til kosninga sem fóru fram í síðustu viku. Nemandinn vann kosninguna.

Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari segir að skólastjórn hafi talið að hugmyndir og skoðanir nemandans hafi verið í andstöðu við forvarnarstefnu skólans og að hann er vera heilsueflandi framhaldsskóli.

„Nemandinn er þekktur fyrir þessar skoðanir og við töldum þær vera í andstöðu við stefnu skólans.“

Vissu að bannið héldi ekki

Guðbjörg segir í samtali við Vísi að hún hafi vitað að bannið hefði aldrei haldið. „Við vissum að við gætum ekki haldið þessu til streitu. En við vildum láta á það reyna.“

En, ef þið vissuð að bannið héldi ekki, hver var þá tilgangurinn með þessu?

„Kannski var það til að þess að ræða málin, að okkur þætti þetta ekki gott. Kannski var það til þess að fá hann til að hugsa sig um og velta þessu fyrir sér. Að hugsa um hvort honum fyndist hann vera góð fyrirmynd fyrir yngstu nemendurna, 16 ára nýnemana.

Nemandinn sagðist vera fylgjandi lögleiðingu kannabiss. Guðbjörg sagðist skilja að þær skoðanir þýddu ekki endilega að hann væri að tala fyrir kannabissreykingum. Margir sem eru á þeirri skoðun vilja einmitt takmarka aðgang unglinga að efninu. „En á meðan þetta er ólöglegt efni höfum við þessa afstöðu. Tveir geðlæknar komu nýlega á fund á vegum forvarnarhóps skólans sýndu þar nemendum okkar fram á að kannabissreykingar geti haft mjög alvarlegar afleiðingar.“

Laufey María Jóhannsdóttir er formaður SÍF.
Forræðishyggja í framhaldsskólum að aukast

Laufey María Jóhannsdóttir er formaður SÍF og hún fundaði með skólastjórn Framhaldsskólans í Mosfellsbæ vegna málsins. Nemandinn hafði samband við SÍF og þau funduðu með skólastjórn í umboði nemandans. „Við vorum alls ekki sátt við hvernig hún [Guðbjörg] og skólastjórnin komu fram í þessu máli. En um leið og við fórum og ræddum málin þá viðurkenndu þau að þau hefðu ekki rétt fyrir sér í málinu.“ Málið varð því nokkuð auðleyst og gat drengurinn aftur boðið sig fram.

Laufey segir að forræðishyggja sé að aukast í framhaldsskólum landsins. Hún segir að í lögum standi að framhaldsskólar eigi að bera ábyrgð á nemendafélögum. Laufey telur að sú ábyrgð eigi að vera fjárhagsleg og að skólastjórnir eigi að reyna að forðast að skipta sér af einstökum málum nemendafélaganna. „Skilin eru auðvitað svolítið ógreinileg. Hluti nemenda er ekki lögráða og það virðist sem skólastjórnir séu undir auknum þrýstingi frá foreldrafélögum. Við erum að fá mikið af málum inn til okkar þar sem skólastjórnendur er að taka ósanngjarna afstöðu. Eins og í þessu máli.“

Laufey segir að einnig megi horfa til nýlegra afskipta skólastjórnenda í Flensborgarskóla á því hvaða tónlistarmenn kæmu fram á nýnemaballinu sem fór fram í vikunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×