Innlent

Rússneski björninn kominn út fyrir girðingu sína

Heimir Már Pétursson skrifar
Utanríkisráðherra segir Rússneska björninn kominn út fyrir girðingu sína með aðgerðum sínum í Úkraínu. Mikil spenna sé á leiðtogafundi NATO vegna þessa máls en búist er við að leiðtogar þessi greini frá aðgerðum bandalagsins við lok fundar á morgun.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sitja leiðtogafund NATO í Wales. Utanríkisráðherra hafði það eftir einum leiðtoga aðildarríkis NATO í austurhluta Evrópu í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag, að „þótt eldarnir brynnu ekki hjá þeim, fyndu þeir lyktina af reiknum."

Leiðtogar NATO lýstu yfir samstöðu með Úkraínu gegn tilburðum Rússa til að spilla friðnum þar og krefjast þess að Rússar dragi herlið sitt frá Úkraínu og bindi enda á innlimun Krímskaga. En NATO lítur ekki lengur á Rússland sem vinsamlegt ríki.

„(Rússneski) Björninn er farinn út fyrir girðinguna sína að okkar mati. Það er bara spurning í dag hvernig viðbrögð og hvernig menn ætla að aðlaga sig að þessu breytta landslagi á næstu árum,“ segir Gunnar Bragi.

En meðal þess sem rætt er á leiðtogafundinum er stofnun viðbragðssveita í aðildarríkjum NATO í austur Evrópu sem og styrking innviða í þeim löndum.

Það hvílir því mikið á ykkur sem sitjið fundinn?

„Það gerir það vissulega enda finnum við það að það er bæði spenna og eftirvænting í loftinu hér í Wales. Þessi fundur mun skipta miklu varðandi þróun og stefnu sambandsins á næstu árum,“ segir utanríkisráðherra.

Ef þetta ástand verði viðvarandi muni það hafa áhrif á stefnu Atlantshafsbandalagsins gagnvart Rússlandi um ókomna tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×