Innlent

Vill efla þátttöku í NATO

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er staddur í Wales.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er staddur í Wales. vísir/gva
Leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Wales lauk í dag, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, sátu fundinn fyrir Íslands hönd.

Á fundum aðildarríkja fyrr í dag tilkynnti forsætisráðherra um þær fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda að efla þátttöku sína og framlög í þágu eigin varna og Atlantshafsbandalagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Forsætisráðuneytinu.

Þar segir að stjórnvöld hyggist fjölga borgaralegum sérfræðingum í störfum bandalagsins og auka fjárframlög í einstök verkefni þess, þ.á m. í Úkraínu. Þá munu stjórnvöld auka stuðning við loftrýmisgæslu hér á landi, þ.m.t. við þyrlubjörgunarþjónustu.

Fram kom á fundunum að leiðtogar aðildarríkjanna hafi verið sammála um að snúa af braut lækkandi framlaga til varnarmála og samþykktu þeir meðal annars sérstaka viðbragðsáætlun sem gerir ráð fyrir auknum viðbragðsflýti herafla og aukinni viðveru í austanverðri Evrópu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi Atlantshafstengslanna og sameiginlegra varna á tímum breytts öryggislandslags í austanverðri Evrópu.

Hann minnti einnig á norðurslóðir og mikilvægi þess að aðildarríki séu meðvituð um þróun mála þar. Sigmundur þakkaði þeim ríkjum sem sinnt hafa loftrýmisgæslu á Íslandi sem þjónaði þýðingarmiklu hlutverki í því tilliti.

Einnig lagði ráðherra áherslu á gildi vefvarna og öryggis á hafinu, sem og framfylgd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Þá lýsti forsætisráðherra yfir áhyggjum af uppgangi ISIL hryðjuverkasamtakanna í Írak og Sýrlandi.

Á fundi með forseta Úkraínu í NATO-Úkraínunefndinni, sem haldinn var í gær, áréttaði forsætisráðherra stuðning og samstöðu með stjórnvöldum í Úkraínu, og fordæmdi framferði Rússlandsstjórnar í landinu og ólögmæta innlimun Krímskaga. Hvatti ráðherra til þess að friðsamlegra leiða verði leitað til lausnar deilunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×