Erlent

Níutíu prósent gagna voru viðkvæmar trúnaðarupplýsingar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Höfuðstöðvar NSA í Maryland.
Höfuðstöðvar NSA í Maryland. Vísir/AFP
Í níu af hverjum tíu tilfellum voru gögn sem Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, safnaði með rafrænum hætti persónuupplýsingar venjulegs fólks sem hafði engin tengsl við skipulögð glæpasamtök. Í mörgum tilvikum var um að ræða viðkvæmar trúnaðarupplýsingar eins og um heilsufar fólks eða trúar- og stjórnmálaskoðanir þess.

Nítíu prósent þeirra sem urðu fyrir því að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, fylgdist með netnotkun þeirra með rafrænum eftirlitsbúnaði á tilteknu tímabili voru venjulegir internetnotendur sem höfðu engin tengsl við skipulögð glæpasamtök og áttu ekki að vera undir eftirliti, að því er fram kemur í Washington Post.

Umfjöllun blaðsins er afrakstur fjögurra mánaða rannsóknar blaðsins á gögnum frá bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden. Stór hluti þeirra upplýsinga sem NSA safnaði um netnotkun venjulegs fólks var varðveittur þótt upplýsingarnar hefðu enga þýðingu fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Washington Post skoðaði 160 þúsund tölvupósta og smáskilaboð og 7.900 skjöl frá 11.000 netnotendum sem NSA safnaði upplýsingum um frá 2009 til 2012. Í níu af hverjum tíu tilvikum voru viðkomandi netnotendur venjulegt fólk.

Að sögn Washington Post er mjög mikið af gögnunum viðkvæmar trúnaðarupplýsingar eins og um ástarsambönd fólks, geðheilbrigðisvandamál, fjárhagsupplýsingar og stjórnmála- og trúarskoðanir þess. Ástæða þess að NSA safnaði svo mikið af upplýsingum um venjulegt fólk er sú að í mörgum tilvikum var upplýsingum safnað um einstaklinga sem höfðu lítil eða fjarlæg tengsl við þá sem fylgst var með hverju sinni.

Ef sá sem fylgst var með skrifaði á spjallborð á vefsvæði á netinu var upplýsingum safnað um alla þá sem rituðu skilaboð á umrætt spjallborð og einnig um þá sem fóru þangað inn til að lesa skilaboð en tóku ekki þátt í neinum samræðum.

NSA aflaði gagna meðal annars með forritum sem kallast PRISM, sem sækir upplýsingar frá Yahoo, Microsoft, Facebook, Google og fimm öðrum leiðandi internetfyrirtækjum vestanhafs og Upstream sem safnar símtölum og rafrænum gögnum gegnum fjarskiptanet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×