Handbolti

Strákarnir okkar mæta Portúgal á Ísafirði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Snorri Steinn og strákarnir halda vestur.
Snorri Steinn og strákarnir halda vestur. Vísir/Getty
Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í handbolta mæta Portúgal í þremur vináttulandsleikjum í næstu viku. Leikirnir eru liður í undirbúningi liðsins fyrir HM-umspilið gegn Bosníu.

Fyrsti leikurinn fer fram á sunnudaginn í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði. Um er að ræða sjálfan Sjómannadaginn og má því búast við mikilli stemningu í Ísafjarðarbæ.

Eins og BB.is greinir frá í frétt sinni um leikinn er þetta í fyrsta skipti síðan 1997 að landsleikur í handbolta fer fram á Ísafirði en Ísland vann Kína, 27-24, þar í bæ fyrir 17 árum.

Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, segir í samtali við Vísi að annar leikurinn fari fram að Varmá í Mosfellsbæ á mánudaginn eftir viku en leikstaður þriðja leiksins verður ekki endanlega ákveðinn fyrr en á morgun.

Landsliðshópurinn verður að sama skapi kynntur á morgun en fyrir áhugasama Ísfirðinga hefst miðasala í Neista á morgun og stendur til föstudags.

„Húsið opnar kl 14 og það er andlitsmálun í boði og fánar og annað til sölu á svæðinu. Allir hvattir til að mæta í bláu og hvetja Ísland áfram. Allir sem koma fá einnig svokalla klöppu, þ.e. harðpappír með þjóðfánanum sem er brotinn saman og notaður til að klappa með miklum látum!“ segir Bragi Rúnar Axelsson hjá handknattleiksdeild Harðar á Ísafirði í samtali við BB.is.

KFÍ-TV sýnir svo beint frá leiknum en það er í fyrsta skipti sem stöðin sýnt beint frá landsleik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.