Viðskipti innlent

Einn starfsmaður Byko sendur í leyfi vegna ákæru um verðsamráð

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Einn starfsmaður Byko hefur verið sendur í leyfi.
Einn starfsmaður Byko hefur verið sendur í leyfi.
Einn starfsmaður Byko, sem áður gegndi stöðu framkvæmdastjóra fagsölusviðs hjá fyrirtækinu, hefur verið sendur í leyfi vegna ákæru sérstaks saksóknara vegna meints verðsamráðs Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins, sem er byggingavöru verslun, frá 2010 til 2011.

Alls eru fimm einstaklingar úr starfsliði Byko ákærðir, en stjórn fyrirtækisins þykir ekki tilefni til þess að senda aðra en þennan eina mann í leyfi á meðan málið fer fyrir dómstóla.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Guðmundur H. Jónsson, forstjóri Byko, sendi frá í kvöld.

Hann segir ákæru sérstaks saksóknara valda sér vonbrigðum:

„Fyrirtækið hefur ávallt haft samkeppnislög eins og aðra lagaumgjörð rekstursins í heiðri og það er einlæg von stjórnenda BYKO að dómstólar muni komast að þeirri niðurstöðu að ákæra saksóknara eigi ekki við rök að styðjast.“

Guðmundur segir að mál þeirra sem ekki hafa verið sendir í leyfi séu „meintar sakir að mati BYKO þess eðlis að ekki sé ástæða til sérstakra aðgerða af hálfu fyrirtækisins.“

Málið á sér nokkra forsögu. Hátt í fjörutíu manns voru handteknir vegna rannsóknarinnar árið 2011 og húsleitir gerðar, eins Vísir hefur áður greint frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×