Körfubolti

Ólafur: Eins og við kunnum ekki að spila körfubolta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Við vorum eins og litlar fermingarstelpur á túr,“ sagði sár og svekktur ÓlafurÓlafsson, leikmaður Grindavíkur, í viðtali á Stöð 2 Sport eftir 87-58 tap Íslands- og bikarmeistaranna gegn KR í þriðja leik í lokaúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld.

„Við skorum 58 stig. Þetta er ekki boðlegt - ég veit ekki hvað ég á að segja,“ bætti Ólafur við en Grindavík vann annan leikinn á heimavelli sínum í Grindavík.

„Við vorum bara heppnir að vinna síðasta leik. Við vorum lélegir í honum líka og erum búnir að vera lélegir alla seríuna. Samt er staðan bara 2-1 og við eigum séns á að fara heim og vinna. Við eigum ekki að bjóða fólki upp á þetta. Við erum alveg úti á þekju. Það er eins og við kunnum ekki að spila körfubolta.“

Ólafur sagði við Vísi eftir síðasta leik að Grindavíkurliðið ætti inni 30 stiga leik frá Bandaríkjamanninum Lewis Clinch en hann hefur ekki sýnt sitt rétta andlit í úrslitarimmunni og gerði það ekki í kvöld.

„Hann getur það alveg. Það er bara eins og hann sé hræddur við KR-ingana. Ég meina, við höfum unnið þá tvisvar áður. Af hverju getum við ekki gert það aftur? Við kunnum alveg að spila körfubolta og ef við spilum eins og menn þá vinnum við KR-liðið,“ sagði Ólafur sem ætlar ekki að horfa upp á KR fagna Íslandsmeistaratitlinum í röstinni í næsta leik.

„Þeir eru ekkert að koma heim og vinna einhvern titil - það er alveg á hreinu,“ sagði Ólafur Ólafsson.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×