Handbolti

Hér slær Duyshebaev til Guðmundar | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Skjáskot
Það gekk mikið á eftir leik pólska liðsins Kielce gegn Rhein-Neckar Löwen í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwenn, greindi frá því í samtali við Vísi í gær að Talant Duyshebaev, þjálfari Kielce, hefði veist að honum og slegið hann fyrir neðan beltisstað. Það atvik má sjá hér.

Duyshebaev hélt svo áfram á blaðamannafundinum þar sem hann sakaði Guðmund um ósæmilega hegðun. Guðmundur svaraði með því að segja ásakanir Spánverjans lygar.

Eins og Guðmundur greindi frá í gær hefur Rhein-Neckar Löwen ákveðið að kæra atvikið en JJ Rowling, talsmaður handknattleikssambands Evrópu (EHF), sagði við danska fjölmiðla í dag að sambandið hefði ekki móttekið kæru frá þýska félaginu. Atvikið sé þó til skoðunar hjá EHF í augnablikinu.

Danskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málið í dag enda tekur Guðmundur við þjálfun danska landsliðsins í sumar. Guðmundur segir í samtali við Jyllands-Posten í dag að málið hefði fengið mikið á sig.

„Þetta er mikið áfall fyrir mig. Ég ætlaði að fara til minna fyrrum leikmanna sem eru nú hjá Kielce og þakka þeim fyrir leikinn. Hann kom þá upp að mér og kýldi mig í klofið með hnefanum. Ég var í sjokki og beygði mig niður. Ég brást við en aðeins með því að öskra á hann,“ sagði Guðmundur í viðtalinu.

Þetta var fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum en liðin eigast að nýju við þann 31. mars næstkomandi, þá í Þýskalandi. Kielce vann í gær, 32-28.

Eins og Guðmundur sagði við Vísi í gær bauð Duyshebaev Guðmundi að útkljá málin út á bílastæði eftir blaðamannafundinn skrautlega. „Þetta er geðsýkis rugl og hrikalega döpur framkoma að hans hálfu,“ sagði Guðmundur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×