Viðskipti erlent

Dýrasti seðill í heimi sleginn

Snærós Sindradóttir skrifar
Eins og sést minna núll seðilsins á vatnsmelónur
Eins og sést minna núll seðilsins á vatnsmelónur VÍSIR/aðsent
Seðlar og myntir seldust á Heritage Auctions uppboðinu í Flórída í Bandaríkjunum í liðnum mánuði fyrir yfir 105 milljónir dala, eða hátt í 12 milljarða króna, sem er metfjárhæð.

Á meðal uppboðsgripa var verðmætasti seðill sem nokkru sinni hefur verið seldur á uppboði, hinn þekkti 1000 dollara seðill frá árið 1890, sem oftast er nefndur „Grand Watermelon note“ vegna hönnunar á núllum sem skreyta bakhlið seðilisins, en þau þykja minna á vatnsmelónur.

Þessi seðill seldist á 3,3 milljónir dollara, eða um 370 milljónir króna. Sami seðill var seldur í einkasölu árið 2006 fyrir rúmlega 2,2 milljón dollara, sem þá var met.

Nýr kafli í goðsögnina

„Safnarar vissu að það var útilokað að þessi seðill kæmi á markaðinn aftur í bráð og buðu í hann í samræmi við það,“ segir Dustin Johnston, yfirmaður fágætra gjaldmiðla hjá uppboðsfyrirtækinu, í samtali við coinweek.com. 

„Niðurstaðan er súi að þessi gullfallegi pappírsmiði er nú sá verðmætasti í heiminum og nýr kafli hefur bæst í goðsögnina um hann.“

Uppboðið tók heila viku og á því voru boðin upp margar þekktustu og dýrmætustu myntir og seðlar sem þekkt eru í Bandaríkjunum. Þar á meðal var fyrsta gullmyntin sem slegin var fyrir Bandaríkin, svo kölluð Brasher Doubloon, handslegin árið 1787, en hún seldist á rúmlega 4,5 milljónir dollara, eða rúmlega hálfan milljarð króna.

Líflegt og blómlegt áhugamál

 „Mörg met voru slegin á uppboðinu og það á sér engin fordæmi í sögu seðla- og myntsöfnunar,“  sagði Greg Rohan, forstjóri fyrirtækisins. „Þessi niðurstaða sýnir vel hvað mynt- og seðlasöfnun er líflegt og blómlegt áhugamál í heiminum.“

Heritage Auctions er stærsta uppboðsfyrirtæki sinnar  tegundar í Bandaríkjunum, með árlega sölu upp á 800 milljónir dollara og yfir 800 þúsund aðilar bjóða í uppboðsmuni þess á netinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×