Viðskipti innlent

Jón nýr forstjóri evrópsks markaðs hjá GreenQloud

Samúel Karl Ólason skrifar
Jón Þorgrímur Stefánsson.
Jón Þorgrímur Stefánsson. Mynd/Aðsend
Fyrirtækið GreenQloud, tilkynnti í dag að Jón Þorgrímur Stefánsson hefur verið skipaður forstjóri yfir evrópskum markaði. Bala Kamallakharan, fyrrverandi forstjóri, var skipaður í stjórn fyrirtækisins.

„Bala hefur náð miklum árangri með fyrirtækinu frá því að hann tók við stöðu forstjóra árið 2012 og hefur á þeim tíma náð að skapa einstaka vinnustaðamenningu sem mun fylgja fyrirtækinu áfram. Stjórnin er hæstánægð með að fá að vinna með Bala í nýju hlutverki,” segir stjórnarformaður GreenQloud, Guðmundur Ingi Jónsson í  tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Stjórnin er mjög ánægð með að fá Jón í forstjórahlutverk á Evrópska markaðinum. Með sína víðtæku reynslu af stórum sýndarvæddum tölvukerfum í margskonar umhverfum mun Jónsi hjálpa fyrirtækinu að vaxa á Evrópska markaðinum og í alþjóðlega upplýsingatæknigeiranum.“

„Ég gekk til liðs við GreenQloud með það að markmiði að láta fyrirtækið vaxa á heimsvísu, skapa vinnustaðamenningu á við þær bestu í heimi og að finna nýja fjármögnun fyrir fyrirtækið. Eftir að hafa náð þessum markmiðum er eðlilegt framhald að ég taki sæti í stjórn fyrirtækisins og gefi Jónsa tækifæri á að leiða fyrirtækið á næsta stig,” sagði Bala Kamallakharan.

Í tilkynningunni segir að GreenQloud sé fyrsta umhverfisvæna tölvuský heims og eyði þremur hindrunum að umhverfisvænni skýjavinnslu. Þær hindranir séu hátt verð, skortur á endurnýjanlegri orku og flutningsörðuleiki.

 „Þjónustur GreenQloud eru knúnar endurnýjalegri orku og kældar með köldu lofti og tekur því ekki þátt í að stækka kolvetnisslóðina og hjálpar viðskiptavinum sínum að taka upp skilvirkari og umhverfisvænari tölvuvinnslu í leiðinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×