Í gær voru 8 manna úrslit í heimsmótinu í holukeppni spiluð á Dove Mountain vellinum í Arizona en nú er ljóst hverjir munu leika í undanúrslitum mótsins í dag. Viðureignin sem vakti mesta athygli í 8 manna úrslitum var á milli Ernie Els og hins unga og efnilega Jordan Spieth en Els sigraði hana 4/2. Spieth hefur vakið mikla athygli á PGA mótaröðinni á undanförnu ári en honum tókst þó ekki að sigra Els sem lék frábært golf í gær og þykir mjög líklegur til þess að sigra mótið.
Það var greinilegt að reynslan hjálpaði Els í gær en það sama verður ekki sagt um viðureign Rickie Fowler og Jim Furyk þar sem Fowler, sem er einn yngsti og vinsælasti kylfingurinn á PGA mótaröðinni, sigraði hinn reynslumikla Jim Furyk í æsispennandi leik sem endaði ekki fyrr en á 18. holu.
Ástralinn geðþekki, Jason Day er kominn í undanúrslit eftir að hafa sigrað Louis Oosthuizen 2/1 en í síðustu viðureign dagsins kom frakkinn Victor Dubuisson öllum á óvart og lagði einn besta holukeppnisspilara í heimi, Graeme McDowell.
Undanúrslitin fara fram í dag en þau verða að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Golfstöðinni sem hefst klukkan 14:00.

