„Þetta var algjör óþarfi. Ég þekki Magga vel og þetta er bara svekkjandi,“ sagði Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, um atvik sem átti sér stað í leik liðsins gegn Keflavík í gær.
KR vann nauman sigur á Keflvíkingum en Brynjar Þór tryggði heimamönnum sigur með því að setja niður þriggja stiga körfu þegar örfáar sekúndur voru eftir af leiknum.
Um miðjan þriðja leikhluta fékk Brynjar Þór högg í andlitið eftir að Magnús Þór Gunnarsson, leikmaður Keflavíkur, lyfti upp vinstri höndinni eins og sést í meðfylgjandi myndbandi.
„Maður er heppinn að vera með hlífðargóm því annars hefðu 1-2 tennur getað farið. Þetta er fúlt,“ sagði Brynjar Þór í viðtali við Hörð Magnússon eftir leikinn í gær.
Brynjar Þór fékk högg í andlitið frá Magnúsi | Myndband
Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Keflavík 90-89 | Brynjar Þór hetja KR-inga
KR vann Keflavík í æsispennandi toppslag í Dominos-deild karla. Brynjar Þór Björnsson skoraði sigurkörfuna fyrir heimamenn.