Innlent

Hundrað á biðlista hjá Drekaslóð

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Thelma er eini fasti starfsmaður Drekaslóðar.
Thelma er eini fasti starfsmaður Drekaslóðar. vísir/vilhelm
Rúmlega hundrað manns eru á biðlista til að komast í einstaklingsviðtal hjá samtökunum Drekaslóð, en samtökin aðstoða þolendur ofbeldis og hafa nú bætt við viðtalstímum á laugardögum. Þar býðst einstaklingum að koma í stutt viðtal án þess að panta tíma og mun það vera í boði frá og með morgundeginum.

„Það er svo vont að byrja að opna svona mál en komast ekki neitt,“ segir Thelma Ásdísardóttir, ráðgjafi hjá Drekaslóð og einn stofnenda samtakanna. „Það er svo langur biðlisti að við ákváðum að reyna að mæta þessu fólki sem kemst ekki í viðtöl. Fólk getur komið án þess að tilkynna sig og mætir bara til okkar.“

Thelma segir samtökin hafa prófað þetta fyrir áramót en lítið hafi náðst að kynna þjónustuna. Núna mun húsið opna klukkan 10.45 og síðasta viðtal hefst klukkan 13.30.

Þolendur tala við þolendur

Thelma segir mikilvægt að vera með sem allra mest í boði fyrir þolendur ofbeldis.

„Við í Drekaslóð erum með þessa grasrótarhugmyndafræði, þolendur að tala við þolendur. Það er það sem við vinnum út frá og okkur fannst vanta í landslagið.“

Hún segir að brjálað hafi verið að gera alveg frá stofnun samtakanna um mitt ár 2010.

„Við höfum aldrei náð að anna eftirspurninni almennilega. Þessi biðlisti myndaðist svo í fyrra og nú eru rétt yfir hundrað manns á honum,“ segir Thelma.

Aðspurð segir Thelma að starfsmenn Drekaslóðar séu ófeimnir við að vísa fólki áfram til sérfræðinga.

„Við gerum það alveg hiklaust. Bæði vísum á og hvetjum fólk til að leita til þeirra, bæði til sálfræðinga og til geðlækna innan félagsmálakerfisins. Svo eru líka ýmsir aðrir sem vísa beint til okkar. Ég lít þannig á að því meira sem við vinnum saman, því betri árangur hlýtur að nást. Við lítum hins vegar líka þannig á að dýrmætasta þekkingin komi úr reynslunni sjálfri. Við teljum okkur sérfræðinga þó við séum ekki með sálfræðidiplóma uppi á vegg.“



Guðrún Axfjörð Elínardóttir, einn ráðgjafa Drekaslóðar.
Léleg þjónusta við gerendur

Thelma segir hlutfall karlmanna sem leiti til Drekaslóðar vera nokkuð hátt, eða nálægt fjórðungi.

„Svo fáum við talsvert af fólki til okkar sem hefur verið beitt ofbeldi af hálfu kvenna. Þá er algengt að fólk hafi verið beitt ofbeldi af hendi margra. Fyrst kannski af móður í æsku og svo af maka síðar á lífsleiðinni. Tilfellin eru margvísleg.“

Drekaslóð treystir sér þó ekki til að aðstoða gerendur, þó komi fyrir að þeir hafi samband.

„Já ofbeldisfólk hefur samband við okkur líka. Sem betur fer sumt til að leita sér aðstoðar. Við getum aftur á móti ekki aðstoðað þá. Ekki vegna þess að við viljum það ekki heldur vegna þess að við kunnum það ekki. Svo væri það auðvitað ekki hægt í sama húsnæði að þjónusta þolendur og gerendur. Það er auðvitað skelfilegt ef þolandi mætir sínum ofbeldismanni í biðstofunni hjá okkur.“

Thelma segir hins vegar að þjónusta við ofbeldisfólk sé almennt léleg hér á landi.

„Það er erfitt fyrir manneskju sem finnur fyrir kynferðislegum hneigðum til barna eða löngun til að beita ofbeldi í sambandi að vita ekki hvert hún getur snúið sér. Fólk þorir kannski ekki að leita sér hjálpar þó það sé skíthrætt við það sem er að gerast innra með því. Vegna þess að auðvitað er betra að koma í veg fyrir ofbeldið áður en það er framið heldur en að vinna úr því eftirá. En þegar ofbeldismanneskja hefur samband vísum við henni áfram eins vel og við getum.“

Einn fastur starfsmaður

Drekaslóð hefur einn fastan starfsmann og er það Thelma sjálf. Alls veita fimm manns ráðgjöf þegar mest er, auk tveggja ráðgjafa sem þjónusta Suðurland og Akranes. „Þetta er auðvitað ekki hægt,“ segir Thelma.

„Við þurfum svo miklu meira til að geta rekið þetta þannig að við þjónustum samkvæmt þörf. Við höfum fengið styrki frá borginni og innanríkisráðuneytinu til að fara af stað með laugardagsverkefnið, sem er auðvitað frábært. Svo vorum við einnig að fá úthlutað frá velferðarráðuneytinu. Við erum auðvitað ánægð með það sem við fáum en biðlistinn sýnir að við þurfum miklu meira. Það er sorglegt að það séu hundrað á biðlista.“

Thelma segir að samtökin fái stundum styrki frá fólki úti í bæ og eitt fyrirtæki styrki þau um fasta upphæð á mánuði.

„Það hefur fólk komið með einstakar upphæðir og stundum birtast allt í einu peningar inni á reikningnum okkar sem er dásamlegt. Þá höfum við fengið afslátt frá fyrirtækjum, til dæmis á símareikningi, og fyrir leigu á kaffivél, sem er sérlega dýrmætt. Við rukkum lágmarksgjöld fyrir viðtölin sem auðvitað allir geta ekki borgað. En það kemur eitthvað inn þó þetta standi ekki undir sér. En við erum að fara að byrja að bjóða fólki að styrkja okkur fast um þúsund eða tvö þúsund krónur á mánuði.“



Á opnunardegi Drekaslóðar, 3. september 2010.
Breytt viðhorf

Aðspurð segist Thelma hafa orðið vör við mikla breytingu á umræðu um ofbeldi hér á landi síðustu ár.

„Alveg klárlega. Ég er búin að vera tengd þessum málaflokki í meira en tuttugu ár og ég sé svakalegar breytingar. Það er allt miklu opnara og skömmin er ekki lengur þolandans, allavega ekki í nærri því í sama mæli og áður. Og núna eru til dæmis karlmenn farnir að stíga mun meira fram með sitt ofbeldi. Sú umræða er kannski ekki á byrjunarstigi en hún er komin skemur á veg en umræðan um ofbeldi gegn konum og börnum.“

Þá segist Thelma að lokum taka eftir breytt viðhorf meðal yngra fólks.

„Þá er ég að tala um fólk undir tvítugu eða í kringum tvítugt. Það talar öðruvísi um ofbeldi og afleiðingar þess en við sem eldri erum. Og það finnst mér æðislegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×