Erlent

Lét jarða sig sitjandi ofan á mótorhjóli

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Það var mikið mál að koma Standley og hjólinu ofan í gröfina.
Það var mikið mál að koma Standley og hjólinu ofan í gröfina.
Jarðaför hins 82 ára Bill Standley frá Bandaríkjunum, sem fór fram um helgina var vægast sagt óvanaleg. Hann var borinn til grafar ofan á Harley Davidson mótorhjólinu sínu, innan í líkkistu úr plexígleri með hertum botni.

Hjólið sem Standley var jarðaður ofan á var sannkallaður dýrðargripur; 1967 árgerðin af Harley Davidson Electrica Glide. Sannkölluð klassík í mótorhjólum.

Hugmynd Standley kviknaði fyrir um tveimur áratugum þegar hann fór að velta því fyrir sér hver myndi erfa hjólið eftir sig. Hann ákvað að eyða óvissunni með því að taka það með sér í gröfina.

Fimm menn unnu að því að útbúa sérstakar stálstangir sem notaðar voru til þess að halda Standley uppréttum á hjólinu. Standley þurfti einnig að kaupa fleiri grafreiti, til þess að koma hjólinu fyrir í kirkjugarðinum í Mechanicsburg í Ohio. Alls þurfti hann þrjá grafreiti og fékk þá alla við hliðina á gröf eiginkonu sinnar.

Standley hafði unnið að smíði líkkistunnar síðastliðin sex ár. Hann lést úr lungnakrabbameini í lok janúar og var jarðaður um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×