Viðskipti innlent

Hlutabréfamarkaðurinn velti 251 milljarði

Haraldur Guðmundsson skrifar
Átján félög eru skráð í Kauphöll Íslands.
Átján félög eru skráð í Kauphöll Íslands.
Velta með hlutabréf nam 251 milljarði á árinu 2013, eða 1.018 milljónum á dag, samanborið við 89 milljarða árið 2012.

Mest voru viðskipti með bréf Icelandair Group, eða 73,8 milljarðar. Þar á eftir komu bréf Eimskips, 40,3 milljarðar, og Marels, 28,8 milljarðar. Bréf Icelandair eiga einnig heiðurinn af því að hafa hækkað mest í verði á Aðalmarkaði Kauphallarinnar, en þau hækkuðu um 121% á síðasta ári. Á First North markaðinum hækkaði verð bréfa HB Granda mest eða 47%, að því er fram kemur í tilkynningu Nasdaq OMX Iceland. 

Úrvalsvísitalan (OMXI6) hækkaði um 18,9% á árinu og stendur nú í 1260 stigum. Heildarvísitala hlutabréfa hækkaði um 27,5%.

„Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 583 milljarðar og voru skráð félög 18, þar af 4 á First North. Á árinu 2013 voru 3 hlutabréf nýskráð, hvers markaðsvirði í lok árs var 70 milljarðar," segir í tilkynningu Kauphallarinnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×