Viðskipti innlent

Landsbankinn hefur leiðrétt lán um 21 milljarð

Stefán Árni Pálsson skrifar
Samanlögð fjárhæð leiðréttinganna er um 21 milljarður króna.
Samanlögð fjárhæð leiðréttinganna er um 21 milljarður króna.
Landsbankinn hefur nú lokið  leiðréttingu endurreiknings á um 18.000 lánum sem kváðu á um  ólögmæta gengistryggingu, þar með talið bílalána, fasteignalána og lána til fyrirtækja.

Samanlögð fjárhæð þessara leiðréttinga er um 21 milljarður króna.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Undanfarna mánuði hefur verið lögð áhersla á að reikna lán sem féllu undir dóm Hæstaréttar í svokölluðu Plastiðjumáli. Lokið hefur verið við að leiðrétta um 90% þeirra lána.

Leiðrétting endurreiknings þeirra lána og samninga sem eftir eru hefur reynst flóknari og tímafrekari en áætlað var í fyrstu.

Í kjölfar nýlegra dóma Hæstaréttar sem vörðuðu uppgreidda samninga og fjármögnunarleigusamninga, liggur fyrir að leiðrétta og endurreikna þarf um 17.000 lán til viðbótar því sem áður var talið.  

Bankinn hefur sett sér það markmið að leiðréttingu allra þessara lána verði að fullu lokið á fyrri hluta ársins 2014.

Fram kemur í fréttatilkynningu Landsbankans að áhrif nýrra dóma Hæstaréttar séu:

•    Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Haga hf. gegn Arion banka hf. mun Landsbankinn leiðrétta endurreikning lána einstaklinga og smærri fyrirtækja sem uppgreidd voru fyrir endurreikning, að öðrum skilyrðum uppfylltum m.a. varðandi festu í greiðslu, aðstöðumun og áhrif á fjárhagslega stöðu. Þetta hefur áhrif á meira en 15.000 bíla- og húsnæðislán auk lána til fyrirtækja. Einungis er um að ræða nokkra tugi lántaka þar sem aðstöðumunar gætir ekki og ekki kemur til leiðréttingar á lánum þeirra, nema nýir dómar kveði á um slíkt.

•    Rétt er að taka fram að dómurinn í Hagamálinu hefur ekki áhrif á lán þeirra sem áður voru viðskiptavinir Avant hf., höfðu greitt upp sín lán þar og fengið greiddar kröfur samkvæmt nauðasamningi.  

•    Dómur Hæstaréttar í máli Landsbankans hf. gegn Flugustraumi ehf. felur í  sér að margir samningar sem áður töldust fjármögnunarleigusamningar eru í raun lánssamningar með ólögmæta gengistryggingu. Landsbankinn mun því endurreikna slíka samninga. Bráðabirgðamat bankans er að þeir samningar séu um 2000 talsins og að um 95% þeirra snerti fyrirtæki. Endurreikningur fyrstu fjármögnunarleigusamninga verður birtur í janúar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×