Viðskipti innlent

Stjórn VR hvetur félagsmenn til að samþykkja nýja kjarasamninga

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR. mynd / GVA

Stjórn VR samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi ályktun þar sem félagsmenn eru hvattir til að samþykkja nýgerðan kjarasamning félagsins. Formaður VR, Ólafía B. Rafnsdóttir, segir mikilvægt að hafa í huga að hér sé um að ræða stuttan samning með nýjum vinnubrögðum.

„Samningurinn veitir okkur svigrúm til að undirbúa langtímasamning sem á að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og varanlegri kaupmáttaraukningu, eins og félagsmenn VR hafa gert kröfu um. Hann felur í sér nýja sýn og nýja leið í kjarasamningaviðræðum með viðræðuáætlun og tímasettum markmiðum um framvindu. Samningurinn gerir jafnframt ráð fyrir markvissum aðgerðum til að styrkja markmið um aukinn kaupmátt og hjöðnun verðbólgu.

Stærstu sveitarfélög landsins tóku áskorun verkalýðshreyfingarinnar og hækkuðu ekki gjaldskrár sínar um áramót og gjaldskrárhækkanir ríkisins verða ekki meiri en 2,5% á ári. Ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún muni, við samþykkt kjarasamninga, endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif sem af þeim leiði verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands,“ segir Ólafía.

Það eru vonbrigði að krafan um víðtækari aðgerðir stjórnvalda í skattamálum náði ekki fram að ganga í þessum viðræðum, segir Ólafía. Markmiðið með þessum samningi sé hins vegar fyrst og fremst að skapa vettvang fyrir nýjan samning og eyða þeim efnahagslega óstöðugleika sem við höfum glímt við síðustu misseri og ár.

„Til þess að þessi markmið náist þurfa allir aðilar að leggja sitt af mörkum, þar með talið stjórnvöld og atvinnurekendur, eins og fram kemur í ályktun stjórnar VR frá í kvöld. Stjórn VR hvetur félagsmenn til að samþykkja samninginn í komandi atkvæðagreiðslu,“ segir Ólafía.

Stjórn VR hvetur félagsmenn sína til að samþykkja nýgerðan kjarasamning. Jafnframt harmar stjórn VR fyrirhugaðar gjaldskrár- og verðhækkanir og hvetur samningsaðila til að koma af heilum hug að þessu samkomulagi og draga hækkanir til baka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×