Skoðun

Græðgi, er það einkenni ráðandi hópa á Íslandi?

Hallgrímur Hróðmarsson skrifar
Samningar standa nú yfir milli launþega og vinnuveitenda þeirra. Pótintátar efnahagsmála og atvinnurekenda ræða gjarnan um að hækkun launa í prósentum megi ekki fara upp fyrir ákveðin mörk ef halda á verðbólgunni í skefjum. Réttilega benda þeir á að ef launin hækka yfir ákveðin mörk þá er líklegt að vöruverð og þjónustugjöld hækki í kjölfarið. Og síðan étur verðbólgan hækkun launanna.

Ósjálfrátt veltir maður því fyrir sér í þessu sambandi hvort almennir launþegar eigi einir að koma okkur út úr kreppunni. Ekki voru það þeir sem komu okkur út á þann kalda klaka. Er ekki réttlátt að aðrir þjóðfélagsþegnar axli sína ábyrgð?

Óskar Garibaldason (1908–1984), formaður Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði, hafði ákveðið markmið að leiðarljósi varðandi laun sín. Hann þáði sömu laun fyrir formennskuna og þau sem hann samdi um fyrir verkafólkið. Forkólfar verkalýðsfélaga dagsins í dag mættu vel taka Óskar sér til fyrirmyndar. Kannski myndi það efla þá í að semja um mannsæmandi laun fyrir umbjóðendur sína.

Um síðustu aldamót tókst framhaldsskólakennurum að semja um laun sem voru í takt við aðra hópa í Bandalagi háskólamanna með sömu menntun. Árið 2006 fór aftur að draga í sundur milli hópanna. Og nú 13 árum síðar er munurinn á hópunum aftur orðinn verulegur eða sem nemur um 17%. Það er ekkert réttlæti í þessu. Kennarar eru fjölmenn stétt en það réttlætir ekki að þeir eigi að sitja eftir. Réttlátast væri að hóparnir fengju svipaðar hækkanir þó að það hefði í för með sér að aðrir félagar í BHM fengju minni hækkanir.

Skammtað sér sjálfir

Lítum á málið frá öðru sjónarhorni. Hvaða réttlæti er í því að embættismenn á vegum ríkisins séu á margföldum launum miðað við almenna félaga í BHM eða annarra stéttarfélaga? Oft er nefnt í þessu sambandi að það tryggi að hæfasta fólkið sækist eftir störfum hjá ríkinu. Margt af þessu fólki fær hækkanir sem Kjararáð ákveður. Hækkanir til þeirra eru verulega meiri því mun meira er tekið mið af launum við sambærileg störf á almennum vinnumarkaði. Þeir lægra settu sitja svo eftir með minni hækkanir.

Annan hóp mætti einnig nefna en það eru þingmenn og ráðherrar. Í gegnum tíðina hafa þeir ýmist fengið hækkanir út frá ákvörðunum Kjararáðs eða þeir hafa af óskammfeilni skammtað sér launin sjálfir. Árið 1962 voru laun þingmanna miðuð við laun menntaskólakennara. Nú eru launin u.þ.b. tvöfalt hærri en laun framhaldsskólakennara og laun ráðherra u.þ.b. þrefalt hærri. Eiga þessir toppar ekki einnig að fá laun í samræmi við það sem hæfir þegnum landsins við að vinna okkur út úr erfiðleikunum?

Aftur heyrir maður hvíslað – enginn gæfi kost á sér til þingsetu ef hann fengi ekki sambærileg laun og á almennum vinnumarkaði. Þetta er bara bull því við þurfum einmitt á því að halda að þingmenn og ráðherrar séu það miklir hugsjónamenn að þeir séu tilbúnir að axla sömu ábyrgð og almenningur í landinu.

Áður en kreppan skall á okkur voru bankamenn farnir að skenkja sér ofurlaun. Það sama gilti um marga forstjóra á almennum vinnumarkaði. Hækkun lægstu launa á þessum stöðum voru alls ekki í samræmi við þetta háttalag. Svo kemur kreppan og við búumst við því að þessir toppar dragi réttar ályktanir um ástandið.

En svo er ekki. Við heyrum núna að topparnir í bönkum og í almennum fyrirtækjum séu aftur farnir að taka sér ofurlaun. Græðgin situr við völd. Ef hægt er að borga þessi laun þá væri réttast að almenningur fengi að njóta þess. Bankar og fyrirtæki eru að rétta úr kútnum. Því ekki að lækka vexti og lækka verð á vöru og þjónustu? Það myndi gagnast almenningi jafnvel betur en launahækkanir. Ef fólk er ekki tilbúið að axla sínar byrðar þá er ekkert annað ráð en að tukta þá til sem stjórnast af græðginni einni saman.




Skoðun

Sjá meira


×