Viðskipti innlent

QuizUp tilnefnt til verðlauna

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn PlainVanilla virðast ánægðir með tilnefninguna.
Starfsmenn PlainVanilla virðast ánægðir með tilnefninguna. Mynd/Plain Vanilla
Íslenski spurningaleikurinn QuizUp, sem framleiddur er af fyrirtækinu Plain Vanilla, hefur verið tilnefndur til hinna árlegu Crunchies verðlauna undir flokkinum „Fastest rising startup“ eða hástökkvari nýliða. Forritið Snapchat vann verðlaunin á síðasta ári og Pinterest árið áður.

„Það er gríðarlega mikill heiður fyrir QuizUp að vera tilnefnt til Crunchies-verðlaunanna þar sem þau eru mjög stór og virt í tækniheiminum. Það er sérstaklega áhugavert að fá tilnefninguna í ljósi þess að við komum mjög seint fram á sjónarsviðið á árinu eða í nóvember,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, forstjóri og stofnandi Plain Vanilla í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Einnig eru fyrirtækin Lulu, Tinder, Upworthy og Whisper tilnefnd til verðlauna í flokknum. Tæknivefsíðan Tech Crunch stendur fyrir verðlaununum í samstarfi við fréttavefsíðurnar GigaOm og VentureBeat sem fjalla um tækni- og frumkvöðlageirann. Almenningur getur kosið í hverjum flokki fyrir sig, en kosningin er hafin og stendur yfir til 26. janúar. Hægt er að kjósa hér.

Þetta er í sjöunda sinn sem Crunchies verðlaunin eru veitt og fer afhendingin fram mánudaginn 10. febrúar. Nánar tiltekið á sérstakri verðlaunaafhendingu í San Francisco. Keppt er í 20 flokkum og á meðal tilnefndra fyrirtækja eru: WhatsApp, Bitcoin, Airbnb og Vine.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×