Viðskipti innlent

Viðburðaríkt ár á íslenskum hlutabréfamarkaði

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/GVA
„Úrvalsvísitalan hækkaði um 4,3% í fyrstu viku ársins, mest hækkuðu bréf Icelandair (+6,1%), Haga (+4,9%) og Fjarskipta (+4,2%). Einungis bréf í einu félagi stóð í stað (N1),“ segir í Vikubyrjun, vikuriti Hagfræðideildar Landsbankans.

Einnig kemur fram að krónan hafi styrkst gegn Evrunni um tæpt prósent, en hreyfst minna á móti Bandaríkjadal og breska pundinu. „Brúnin lyftist aðeins á íslenskum neytendum í desember, en væntingavísitala Gallup mældist 78,6, í samanburði við 68,4 í mánuðinum á undan.“

Lánamál ríkisins gáfu í vikunni út ársáætlun og ársfjórðungsáætlun fyrir 1. ársfjórðung, þar sem fram kemur að heildarútgáfa ríkisbréfa verði um 50 milljarðar króna á árinu. Þar af 10-20 milljarða á fyrsta ársfjórðungi. Þá er hrein útgáfa ríkisbréfa á árinu áætluð um 25 milljarðar króna.

„Munurinn á heildar- og hreinni útgáfu skýrist að mestu á því að RIKB 14 er á gjalddaga á árinu. Áætlað er að staða ríkisvíxla verði 30 ma. kr. í árslok 2014.“ Fyrsta útboð ríkisbréfa á árinu er fyrirhugað á föstudaginn næstkomandi.

„Árið 2013 var viðburðarríkt á íslenskum hlutabréfamarkaði. Úrvalsvísitalan hækkaði talsvert á árinu og ljóst að áhuginn á hlutabréfum sem fjárfestingakosti hefur aukist.“ Þrjú ný félög voru skráð í Kauphöllina og þar af komu tvö ný inn í Úrvalsvísitöluna. Jafnfram voru minni umsvif á skuldabréfamarkaði.

„Á myndinni sjást helstu verðbreytingar á árinu 2013. Icelandair bar höfuð og herðar yfir önnur félög í hækkunum. Fór gengi félagsins úr 8,2 í 18,2 frá upphafi til loka ársins sem er 122% hækkun.“ Mesta lækkun ársins var hjá Fjarskiptum sem lækkaði um 16 prósent.

Mynd/Hagfræðideild LB





Fleiri fréttir

Sjá meira


×