Lífið

Mynd sem fjallar um kjöt

Ugla Egilsdóttir skrifar
Mynd Heimis var sýnd á Northern Wave Film Festival, sem fór fram á Grundarfirði.
Mynd Heimis var sýnd á Northern Wave Film Festival, sem fór fram á Grundarfirði. MYND/ÚR EINKASAFNI
„Maður verður að horfa á myndina til að botna eitthvað í henni, en hún fjallar samt klárlega aðallega um kjöt,“ segir Heimir Gestur Valdimarsson sem fékk verðlaun fyrir örmynd ársins á hátíðinni Örvarpanum fyrir myndina Kjöt. Úrslitin voru kynnt á hátíð í Bíó Paradís á laugardagskvöld, en Örvarpið er samstarfsverkefni Ríkisútvarpsins og Bíó Paradísar. „Mér skilst að örmyndaformið gangi aðallega út á mínútulöng myndbönd. Margar myndirnar í þessari keppni voru mínúta að lengd, en þær máttu vera allt að fimm mínútur. Mín var þrjár mínútur,“ segir Heimir.





Úr myndinni Kjöti.MYND/ Heimir Gestur Valdimarsson
Myndin var útskriftarverkefni Heimis í skólanum FAMU í Tékklandi. „Ég lærði kvikmyndatöku þar í eitt ár, en ég hafði þó eitthvað verið að grufla í kvikmyndagerð áður. Þessi mynd var skólaverkefni. Kennari í skólanum setti okkur fyrir að búa til mynd um drauma. Markmiðið hjá mér var að búa til vídeó sem mér þótti líta vel út og væri súrrealískt. Það er smá saga í myndinni, en þetta myndræna í myndinni er mikilvægara en sagan,“ segir Heimir.

Auk þess að gera örmyndir hefur Heimir tekið upp tónlistarmyndbönd. „Meðal annars fyrir hljómsveitina Grísalappalísu, fyrir lag sem heitir Í Mjóddinni, og fyrir hljómsveitina Oyama,“ segir Heimir. Einnig voru veitt áhorfendaverðlaun á Örvarpinu, sem féllu í skaut Einari Baldvini Arasyni fyrir myndina Echos – Who Knew. Erlendur Sveinsson fékk síðan sérstök verðlaun frá dómnefnd fyrir myndina Breathe.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.