Innlent

Stúdentar eru skilvísir

Eva Bjarnadóttir skrifar
Stúdentar reynast skilvísir leigjendur en margir bíða eftir að komast að hjá leigufélögum námsmanna.
Stúdentar reynast skilvísir leigjendur en margir bíða eftir að komast að hjá leigufélögum námsmanna. Fréttablaðið/Vilhelm
Almenn ánægja ríkir meðal leigufélaga námsmanna með heimtur á leigutekjum. Reynsla félaganna af vanskilum eftir efnahagshrunið var ólík, þar sem á Stúdentagörðum varð ekki mikil breyting, en hjá Byggingafélagi námsmanna jukust vanskil tímabundið.

Leigufélög námsmanna eru þrjú talsins, Stúdentagarðar, Háskólagarðar og Byggingafélag námsmanna. Samtals leigja félögin út um 2.300 íbúðir.

„Við dáumst að því hvað íbúarnir standa vel í skilum eftir efnahagshrunið,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta sem rekur Stúdentagarða. „Það kreppir víða að og námslán hafa nánast ekkert hækkað á meðan matur og annað hækkar,“ segir Rebekka. Ástæðuna fyrir góðum skilum segir hún fyrst og fremst vera lága leigu, „Þetta er það sem þau ráða við, þar af leiðandi standa þau í skilum,“ segir hún.

Leiga á námsmannaíbúð er á bilinu 50.000-140.000 krónur allt eftir stærð íbúðanna, frá einstaklingsíbúðum til 200 fermetra fjölskylduíbúða. Leiga á almennum markaði er hins vegar afar misjöfn. Í könnun Neytendasamtakanna frá árinu 2011 á leiguverði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu reyndist leiguverð á tæplega 40 fermetra íbúð vera bilinu 30.000-120.000 krónur.

Hjá Byggingafélagi námsmanna jukust vanskil vegna leigu fyrst eftir efnahagshrunið, en dregið hefur úr þeim síðan. Ríflega þriðjungi færri leigjendur lentu í vanskilum í nóvember í ár, heldur en á sama tíma í fyrra að sögn Böðvars Jónsonar, framkvæmdastjóra félagsins. Böðvar segir hlutfall vanskila hafa lækkað jafnt og þétt síðustu tvö ár. „Hluti af skýringunni er að við vorum á tímabili á almennum markaði en erum nú bara á námsmannamarkaði,“ segir Böðvar. Hann segir námsmenn almennt vera skilvísa og að félagið sé með gott innheimtuhlutfall samanborið við önnur leigufélög.

Ingvar Jónasson, framkvæmdastjóri Háskólagarða, segir vanskil leigjenda félagsins afar sjaldgæf. Það hafi þó komið fyrir að vanskilamál hafi endað í lögheimtu og fyrir dómstólum.

Alltaf biðlistar eftir stúdentaíbúðumMaría Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir húsnæðismálin helsta baráttumál stúdenta. Sama hversu margar stúdentaíbúðir séu byggðar, alltaf séu um 800 stúdentar á biðlista Stúdentagarða. „Eðli málsins samkvæmt er auðveldara að leigja á Stúdentagörðum, en þeir þjóna eingöngu um sjö prósentum stúdenta,“ segir María. Á Norðurlöndum er miðað við að þjóna 15 prósentum stúdenta, sem samræmist samanlögðum fjölda leigjenda á Stúdentagörðum og á biðlistanum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×