Lífið

Eldgosið Ólafur opnar K-bar

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Ólafur Örn Ólafsson framreiðslumaður er smekkmaður á mat og flottur í tauinu. Hann opnar K-bar á Laugavegi á næstu dögum.
Ólafur Örn Ólafsson framreiðslumaður er smekkmaður á mat og flottur í tauinu. Hann opnar K-bar á Laugavegi á næstu dögum. mynd/vilhelm
„Mér finnst mjög gaman að vera fínn. Ég geng iðulega með bindi og spari set ég upp slaufu. Mér finnst líka mjög gaman að setja saman ólíka liti til að lífga upp á tilveruna. Til dæmis með appelsínugulu buxunum,“ segir Ólafur Örn Ólafsson veitingamaður þegar hann er spurður út í dress dagsins; appelsínugular buxur og köflótta skyrtu.

Ólafur er annálaður smekkmaður þegar kemur að mat og drykk og því ekki að undra að það sama eigi við um klæðaburðinn. Hann vill þó ekki viðurkenna að hann velti fatnaði mikið fyrir sér, en samt!

„Mér er alls ekki sama í hverju ég er. Ég eyði þó ekki miklum tíma í tískuverslunum, versla aðallega í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar og á nokkra jakka til skiptanna. Stundum kaupi ég líka skyrtur í sænska tískurisanum, þegar ég er í útlöndum. Annaðhvort vil ég föt sem duga lengi eða eru bara alveg einnota,“ segir hann.

Í starfi sínu sem veitingamaður er Ólafur í vinnufötum. Hann segir það ekki hafa átt sérstaklega vel við sig og verið því fegnastur þegar hann fékk að vinna í eigin fötum. „Það hentar mér mun betur, að geta verið ég sjálfur, eldgosið sem ég er,“ segir hann hlæjandi.

Ólafur stendur nú í ströngu, en hann opnar eigin veitingastað á næstu dögum, K-bar, á Laugavegi 74. Hann segir staðinn ekki eiga sinn líka á landinu.

„Kóreskur matur er mjög vinsæll í heiminum í dag en hefur ekki ratað til Íslands, fyrr en núna. Eldhúsið á K-bar verður innblásið af kóreskum götumat með alls konar skemmtilegu á matseðlinum. Til dæmis heimalöguðu kimchi sem er hjartað í kóreanskri matargerð.

Við ætlum að hafa bimbimbap og kóreskar tacos og „steamed buns“ með dæmigerðum kóreskum fyllingum og bjóða upp á skemmtilega og öðruvísi kokkteila, sem sumir verða bornir fram í könnum eða stórum flöskum sem fólk deilir með sér,“ segir Ólafur.

Hann verður þá væntanlega ekki klæddur í stífan og staðlaðan búning á nýja staðnum?

„Nei, alls ekki, stemningin hér verður svo létt og hress.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.