Handbolti

Aron | Þurfum að gefa allt í leikinn gegn Frökkum

Sigurður Elvar Þórólfsson í Barcelona skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska handboltalandsliðsins, fór yfir nokkur áhersluatriði á laufléttri æfingu liðsins í Palau Sant Jordi höllinni í Barcelona í morgun. Frakkar verða mótherjar Íslands í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í kvöld og það lið sem tapar er úr leik. Aron hefur góða tilfinningu fyrir leiknum og telur að menn séu hættir að hugsa um undarlega ferðatilhögun liðsins frá Sevilla til Barcelona í gær.

„Þetta leggst vel í okkur, þótt það hafi verið óheppilegt sem gerðist í gær, við vinnum úr því eins og við getum. Við tókum létta æfingu hérna, þar sem við fórum yfir áhersluatriði í varnarleiknum. Bæði hvað varðar þeirra sterku einstaklingum og þeirra leikaðferðum.

Við þurfum að fá upp vörn og markvörslu – það er mjög mikilvægt að við séum þéttir varnarlega. Frakkarnir eru mjög sterkir í þessum einvígum maður gegn manni. Við þurfum að ná jafnvægi milli þess sem við erum ákveðnir og þéttir. Við þurfum að hlaupa í bakið á þeim, þar sem þeir reyna að komast sem auðveldast í gegnum leikina en þeir horfa alltaf fram á endastöð mótsins. Við þurfum að gefa allt í þetta í kvöld og ef menn þurfa að skríða útaf vellinum þá verður það bara að vera þannig," sagði Aron Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×