Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Rússland 25-30

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Slæmur lokakafli varð íslenska landsliðinu að falli gegn Rússum í fyrsta leik liðsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik. Rússar lönduðu fimm marka sigri, 30-25, en Ísland var 19-16 yfir þegar tuttugu mínútur voru eftir. Íslenska liðið sýndi styrkleika sinn af og til í leiknum en sóknarleikur liðsins var ekki nógu vel útfærður – og of margir leikmenn léku undir getu.

Það voru margir óvissuþættir hjá íslenska liðinu fyrir leikinn gegn Rússum. Aron Kristjánsson þjálfari liðsins veðjaði á að Aron Rafn Eðvarsson markvörð. Og hinn ungi leikmaður Hauka fékk risastórt hlutverk. Djörf ákvörðun hjá þjálfaranum og Björgvin Páll Gústavsson hóf því leikinn á bekknum.

„Ég taldi að Aron væri í besti kosturinn í leikinn. Hann hefur leikið vel og var góður gegn Svíum í æfingaleiknum – það gekk ekki vel hjá honum og Björgvin kom sterkur inn af bekknum. Þannig er þetta bara, mikil samkeppni um stöðurnar, og allir leikmenn vilja spila sem allra mest," sagði Aron við Vísir þegar hann var inntur eftir rökstuðningi á því að velja Aron Rafn í byrjunarliðið.

Guðjón Valur Sigurðsson og Þórir Ólafsson léku í vinstra og hægra horni, Róbert Gunnarsson var á línunni í sóknarleiknum, og Snorri Steinn Guðjónsson stjórnaði leik liðsins. Aron Pálmarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson léku í vinstri – og hægri skyttustöðunum.

Vignir Svavarsson og Sverre Jakobsson skiptu við þá Róbert og Snorra í varnarleiknum – allt saman þaulæfð atriði og uppskrift sem hefur gefist vel í gegnum tíðina.

Það var mikið hik á leik íslenska liðsins á upphafsmínútum leiksins – í vörn sem sókn. Og markvarslan var í takt við það.

Rússar voru alltaf með yfirhöndina og í stöðunni 3-2 tók Snorri Steinn Guðjónsson vítakast sem fór í stöngina. Það virðist ætla að reynast erfitt fyrir Snorra að brjóta ísinn, en hann hefur ekki skorað úr víti frá því í Ungverjaleiknum á Ólympíuleikunum í fyrrasumar.

Íslendingar gáfu eftir og Rússar náðu fimm marka forskoti, 8-3. Aron Kristjánsson gerði þá breytingu og setti Björgvin í markið í stað Arons sem hafði ekki varið skot. Á sama tíma hafði Igor Levshin varið 6 skot.

Rússar léku 5+1 vörn, með Konstantin Igropulo framarlega, og var honum ætlað það hlutverk að gæta sérstaklega að Aroni Pálmarssyni. Íslenska liðinu gekk ágætlega að leysa þessa áskorun – en skotnýtingin var ekki nógu góð.

Varnartröllið Egor Evdokimov var ákveðinn á línunni – og Róbert Gunnarsson átti erfitt uppdráttar í sóknarleiknum. Ungverska dómaraparið leyfði Evdokimov að komst upp með mikla óþarfa hörku í varnarleiknum. Og meiddist Róbert í baki eftir eina byltuna frá Evdokimov. Róbert kom ekkert meira við sögu í leiknum og læknir liðsins taldi að hann væri ekki leikfær. Óljóst er með framhaldið hjá línumanninum sterka.

Útlitið var ekki bjart hjá Íslendingum þegar fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson fór inn úr horninu í stöðunni 8-3, en skot hans fór langt framhjá. Guðjón Valur lét nokkur vel valin orð falla þegar hann hljóp til baka í vörnina og hreinlega öskraði á sjálfan sig. Guðjón hefur oft nýtt skot sín betur en hann skoraði alls 7 mörk í leiknum úr 14 skotum.

„Við gerðum haug af mistökum og þar fór ég fremstur í flokki. Ég tek þetta á mínar herðar. Ég væri annars ekki að segja þetta. Ég vil gera meiri og betri hluti en ég gerði í dag," sagði Guðjón eftir leikinn.

Aron Pálmarsson minnkaði muninn í fjögur mörk, 8-4, eftir gott hraðaupphlaup og sendi vonarneista til liðsfélaga sína. Það hafði áhrif því Björgvin Gústavsson varði sitt fyrsta skot í næstu sókn Rússa, Guðjón Valur brunaði upp og skoraði. Staðan því 8-5 og allt gat gerst.

Ólafur Guðmundsson fékk tækifæri til að sýna hvað í honum býr, hann átti fína innkomu, varði skot í vörninni, lagði upp mark fyrir Þóri Ólafsson í næstu sókn. Vel gert en framhaldið var ekki gott hjá Ólafi sem fékk sína fyrstu brottvísun skömmu síðar. Og hann fékk síðan aðra brottvísun á 20. mínútu og rautt spjald um miðjan síðari hálfleik. „Spennustigið var ekki rétt stillt hjá Ólafi en við þurfum að koma þessum leikmönnum inn í mótið – og það er gott fyrir íslenska landsliðið að ungir leikmenn fá reynslu á stórmótum. Ólafur mun vinna úr þessu og koma sterkur til baka," sagði Aron Kristjánsson þjálfari eftir leikinn við Vísi.

Það er ljóst að Aron þarf að leysa risaverkefni á þessu móti – og koma hægri vængnum í gang í sókn og þeir leikmenn sem koma inn af bekknum í skyttustöðurnar þurfa að vera meira ógnandi í leik sínum.

Góður leikkafli íslenska liðsins á síðustu 10 mínútum fyrri hálfleiks gaf vonir um að liðið væri að ná réttum takti. Vignir Svavarsson skoraði úr hraðaupphlaupi 10-7, og Kári Kristján Kristjánson lét vita af sér og skoraði eftirminnilegt mark þar sem hann stökk inn í vítateiginn og hirti þar frákast.

Aron Pálmarsson og Guðjón Valur drógu vagninn og sáu til þess að Þórir Ólafsson minnkaði muninn í 11-10 og Íslendingar voru einum færri á þeim tíma. Guðjón Valur jafnaði síðan í 11-11 og Kári Kristján kom Íslandi yfir í fyrsta sinn í leiknum 12-11 og fjórar mínútur lifðu af fyrri hálfleik.

Sergei Gorbov kom Rússum yfir með síðasta skoti fyrri hálfleiks, 14-13.

Björgvin varði fyrsta skotið í síðari hálfleik. Fagnaði því ógurlega og Aron jafnaði með dúndurskoti, Rússar svöruðu með tveimur mörkum og komust í 16-14. Vignir Svavarsson tók því næst mikla rispu, skoraði og fiskaði víti, og Þórir Ólafsson jafnaði úr vítakastinu, 16-16. Á næstu mínútum sýndi íslenska liðið stórkostleg tilþrif – þar fór Aron Pálmarsson fremstur í flokki. Sendingar hans í hraðaupphlaupum liðsins voru magnaðar – dúndraði þar á samherjar sína eins og leikstjórnandi í NFL deildinni.

Guðjón Valur skoraði, 18-16, fyrir Ísland og Guðjón Valur bætti við marki, 19-16, og allt eins og það átti að vera og Rússar taka leikhlé.

Á þessum tímapunkti fór allt í baklás hjá íslenska liðinu. Ólafur Guðmundsson fékk sína þriðju brottvísun þegar 16 mínútur voru eftir af leiknum, Rússar skora hvert markið á fætur öðru og jöfnuðu metin 20-20 og Íslendingar taka leikhlé.

Vignir Svavarsson meiðist á ökkla og fer útaf, 23-22 fyrir Rússa en Aron jafnar með langskoti. Frábært skot. En það dugði ekki til því næstu mínútur voru skelfilegar hjá íslenska liðinu. Sjö mínútur eftir og staðan var 26-23 fyrir Rússland. Ásgeir Örn Hallgrímsson náði að skora sitt eina mark í leiknum þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. „Ég var langt frá mínu besta og náði mér aldrei á strik í sókninni. Þetta var ekki nógu gott hjá mér og ég á að gera betur fyrir liðið," sagði Ásgeir í leikslok og dróg ekkert undan að hann hefði leikið illa.

Næsti leikur Íslands er á morgun, sunnudag, gegn Síle. Lið sem Makedónía átti í vandræðum með fyrr í dag. Og það þarf margt að laga í leik íslenska liðsins fyrir þann leik.

Aron: Þurfum meiri fjölbreytni

Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins, segir að það hafi ýmislegt komið til þegar að Ísland tapaði fyrir Rússlandi á HM á Spáni í dag.

„Við komum mjög illa inn í leikinn. Við nýttum ekki fín færi og fengum auðveld mörk á okkur. Svo náðum við upp góðri baráttu og komumst í forystu," sagði Aron við Arnar Björnsson eftir leikinn í dag.

„Þeir náðu okkur svo þegar það fór að draga af mönnum í seinni hálfleik. Markvarslan datt þá niður sömuleiðis."

„Það mæðir líka mikið á vinstri vængnum í leiknum og við þurfum að fá meira úr hægri vængnum," bætti hann við.

Hann segir að það hafi verið rétt ákvörðun að setja Aron Rafn markvörð í byrjunarliðið. „Aron byrjaði illa en Björgvin átti líka slæma innkomu í leiknum gegn Svíum. En Björgvin kom sterkur inn í leikinn og það var gott að sjá. Hann datt samt niður síðasta korterið."

„Baráttan var mestallan tíman mjög góð og vörnin náði sér ágætlega á strik á köflum. Við fengum okkar færi í sókninni en þurfum meiri fjölbreytni. Við klikkuðum á einföldum atriðum en svona er þetta bara."

Guðjón Valur: Ábyrgðin hvílir á mér

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson segir að hann hafi gert of mörg mistök í leiknum gegn Rússum á HM í handbolta í dag.

Ísland tapaði fyrir Rússlandi, 30-25, eftir að hafa verið með þriggja marka forystu snemma í síðari hálfleik.

„Við ætluðum okkur allt aðra hluti í þessum leik. Þetta er klárlega vont, enda finnst mér við vera betri. En maður verður að vera hreinskilinn og þetta var okkur sjálfum að kenna."

„Við gerðum haug af mistökum og þar fór ég fremstur í flokki. Ég tek þetta á mínar herðar. Ég væri annars ekki að segja þetta. Ég vil gera meiri og betri hluti en ég gerði í dag."

„Við brotnuðum svo algjörlega síðustu tíu mínúturnar og það má ekki gerast. Frá 10. mínútu til 45. mínútu fannst mér við vera með þá. Þeir vissu í raun ekki hvað þeir ættu að gera. En þá var algjör skipsbrot hjá okkur."

Ísland mætir Síle á morgun og þarf nauðsynlega á sigri að halda. „Það er það skemmtilega við stórmótin. Maður er svekktur í smástund en svo gleymist þetta. Það er nýr dagur á morgun og enn mikið eftir af riðlakeppninni."

Ásgeir Örn: Var langt frá mínu besta

„Það eru gríðarleg vonbrigði að hafa tapað þessum leik – við náðum fínum kafla eftir skelfilega byrjun. En síðan hrundi leikur okkar síðustu fimmtán mínúturnar," sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson landsliðsmaður eftir 30-25 tap Íslands gegn Rússum í fyrsta leiknum á HM á Spáni. Ásgeir Örn skoraði aðeins eitt mark í leiknum og hann var langt frá því að vera ánægður með sinn leik.

„Við gerðum klaufaleg mistök – og réttum þeim sigurinn. Ég var langt frá mínu besta og það er ekki ásættanlegt að fá eitt mark úr hægri skyttustöðunni í svona leik. Ég fann mig ekki og gerði mistök sem ég á ekki að gera. Byrjendamistök að mínu mati og ég þarf að fara yfir minn leik með þjálfaranum og liðinu," sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson.

Sverre: Getum ekki vælt og grenjað tap í fyrsta leik

„Ég er mjög svekktur með þetta tap en ég leyfi mér að vera svekktur í svona klukkutíma og þá er þetta búið. Við getum ekki vælt og grenjað tap í fyrsta leik á stórmóti – það er ekki góður grunnur til að byggja á fyrir næsta leik sem er strax á morgun gegn Síle," sagði Sverre Jakobsson leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta eftir 30-25 tap liðsins gegn Rússum á HM á Spáni í kvöld.

„Við náðum að koma sterkir til baka eftir slæma byrjun og vorum bara marki undir í hálfleik. Ég fann það í klefanum í hálfleik að menn höfðu trú á þessu. Og við komumst þremur mörkum yfir um miðjan síðari hálfleik og sjálfstraustið var í lagi. Síðan veit ég ekki hvað gerðist og við þurfum að skoða hvað fór úrskeiðis í kvöld – þetta var göf að okkar hálfu," sagði Sverre Jakobsson leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta eftir 30-25 tap liðsins gegn Rússum á HM á Spáni í kvöld.

„Varnarleikurinn var ágætur af og til – við fengum á okkur mörg mörk úr hraðaupphlaupum. Mér fannst varnarleikurinn gefa eftir á lokakaflanum og það var óöryggi í okkar leik , í vörn sem sókn. Það eru talsverðar líkur á því að Rússar vinni handboltaleiki á stórmóti en mér fannst við vera að gera þeim þetta of auðvelt fyrir.

Myndir / Vilhelm Gunnarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×