Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður hefði átt að heyra undir fjármálaráðuneyti

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Niðurstöður sláandi Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um starfsemi Íbúðalánasjóðs var kynnt á blaðamannafundi í Oddfellow húsinu í gær.
Niðurstöður sláandi Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um starfsemi Íbúðalánasjóðs var kynnt á blaðamannafundi í Oddfellow húsinu í gær. Mynd/Vilhelm
Slæm staða Íbúðalánasjóðs er rakin til vanhæfni stjórnenda Íbúðalánasjóðs og sinnuleysi af hálfu helstu eftirlits- og valdastofnana. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem kynnt var á blaðamannafundi í gær, segir að sjóðurinn hafi misst sjónar á raunverulegu hlutverki sínu og farið í útrás í stað félagslegs aðhalds.

Skýrsla nefndarinnar er svört en þar kemur fram að heildartap Íbúðalánasjóðs frá stofnun nemi allt að 270 milljörðum króna. Af heildartapinu er 86 milljarða tap fyrst og fremst vegna útlána. Tvo þriðju af útlánatapi sjóðsins má rekja til lána sem veitt voru á árunum 2005 til 2008.

Rót vandans er rakin til ársins 2004 þegar afdrifaríkar kerfisbreytingar voru gerðar í rekstri sjóðsins, bæði í útlánum og fjármögnun sjóðsins. Ákveðið var að bjóða eigendum hús- og húsnæðisbréfa að skipta bréfum sínum í íbúðabréf í júnílok 2004 til að einfalda kerfi sjóðsins. 

Einnig var ákveðið var að gera bréfin óinnkallanleg, þannig að sjóðurinn gæti ekki greitt lánin upp, en það var gert til að gera þau áhugverð fyrir erlenda fjárfesta.

Uppgreiðslur viðskiptavina sjóðsins hófust í stórum stíl í ágúst 2004 þegar bankarnir byrjuðu að bjóða upp á betri kjör en Íbúðalánasjóður.

Jón Þorvaldur Heiðarsson, einn höfundur skýrslunnar, sagði á blaðamannafundinum í gær að þá hefði verið búið að loka fyrir allar þær lausnir sem í boði voru fyrir sjóðinn til að lágmarka uppgreiðsluáhættu sína. „Aðeins voru í boði tvær leiðir til þess að koma í veg fyrir uppgreiðsluáhættu en þær voru annarsvegar að gera skuldabréf sjóðsins innkallanleg og hins vegar að banna skuldurum sjóðsins að greiða lánin upp, en hvorugt var gert.“

Segir í skýrslunni að þessi skuldabréfaskipti hafi verið ein verstu og afdrifaríkustu mistök í sögu sjóðsins og tapaði hann 21 millljarði króna einungis á þessum skiptum.

Einnig kemur fram í skýrslunni að vænlegast hefði verið fyrir sjóðinn að halda sig til hlés í samkeppninni við bankana og einbeita sér að því að lágmarka eigið tap. Yfirvöld ákváðu hins vegar að hækka veðhlutfall Íbúðalánasjóðs úr 65 prósentum í 90 prósent til að bregðast við samkeppni sem varð þjóðinni afar dýrkeypt að mati nefndarinnar.

Þrátt fyrir hinar miklu uppgreiðslur hélt sjóðurinn áfram að selja hin nýju íbúðabréf og urðu uppgreiðslur meiri en útlán, sem gerði það að verkum að sjóðurinn sat uppi með 112 milljarða króna sem sjóðnum reyndist erfitt að ávaxta með fullnægjandi hætti.

 

Enn fremur sótti Íbúðalánasjóður sér á sama tíma 69 milljarða til viðbótar af markaði með útgáfu skuldabréfa sem jók ónotanlegt fé í 181 milljarð króna. Fram kemur í skýrslunni að engin haldbær ástæða hafi verið fyrir útgáfunni önnur en sú það hefði litið illa út fyrir sjóðinn að hætta úgáfu sem hefði minnkað áhuga erlendra fjárfesta á bréfum sjóðsins. Sú ákvörðun jók vanda sjóðsins stórlega, að mati skýrlsuhöfunda.

Kirstín Flygenring, annar höfndur skýrlsunnar, sagði á fundinum í gær að starfsmenn Íbúðalánasjóðs hefði skort þekkingu á fjármálastarfsemi til þess að stýra áhættu bankans. Hún benti á að sjóðurinn hefði orðið að stórum áhættusæknum íbúðalánabanka í stað félagslegs aðhalds á fasteignamarkaði.

Nefndin telur að pólitískum kerfisbreytingum árið 2004 sé um að kenna, enda kom það fram í máli Kirstínar í gær að sjóðurinn eigi í raun að heyra undir fjármálaráðuneyti í stað félagsmálaráðuneytis.

Einnig var talið að óformleg samskipti í ákvarðanatöku sjóðsins hafi ekki verið í anda góðrar stjórnsýslu og að innra eftirlit hjá sjóðnum hafi skort verulega.

Veruleg vanhæfni stjórnenda Íbúðalánasjóðs og ótrúlegt sinnuleysi af hálfu helstu eftirlits- og valdastofnana kostuðu þjóðina milljarða króna sem ekki sér fyrir endann á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×