Innlent

Alvarleg staða í Bandaríkjunum

Hjörtur Hjartarson. skrifar
Vika er síðan þingmönnum í Bandaríkjunum mistókst að samþykkja fjárlögin með þeim afleiðingum að fjölda opinberra stofnana og fyrirtækja var lokað. Nú liggur fyrir að ná samkomulagi um hækkun skuldaþaksins svokallaða. Takist það ekki mun það hafa alvarleg áhrif á fjármálamarkaði heimsins.

Hlutabréf í Bandaríkjunum lækkuðu umtalsvert við opnun markaða vestanhafs í morgun. Vandræðagangur stjórnmálamanna í Bandaríkjunum undanfarna daga hefur valdið titringi á fjármálamörkuðum víða um heim, þó sérstaklega á heimaslóðum.

Deilan milli Demókrata og Repúblikana gengur í stuttu máli út á það að fulltrúardeildin vill breytingar á fjármögnun á nýtilkomnu heilbrigðiskerfi sem kennt er við Barack Obama, forseta landsins. Litlar líkur eru hinsvegar taldar á að Obama gefi mikið eftir í því máli. Ásakanir á ganga á víxl en þó skellir meirihluti Bandaríkjamanna skuldinni á Repúblikanaflokkinn. Forsetinn sagði um helgina að meirihluti þingmanna í báðum deildum vilji höggva á hnútinn en að fámennur hópur harðlínumanna í Repúblikanaflokknum komi í veg fyrir það.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna
Ofan á þessi vandræði bætist síðan sú staðreynd að 17.október verður Bandaríkjaþing að samþykkja lög sem heimila alríkisstjórninni að hækka skuldaþakið. Repúblikanar vilja ekki veita stjórninni þá heimild umbúðalaust og því er raunhæfur möguleiki á að Bandaríkin lendi í greiðslufalli með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir fjármálakerfi heimsins.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands segir erfitt að ímynda sér að þingmenn Bandaríkjanna séu tilbúnir að ganga svo langt að semja ekki áður en fresturinn rennur út.

"Ég held nú að áður en að menn fara fram af þessu hengiflugi þá muni menn sjá að sér og bakka en að það verði gert með einhverri drama á síðustu stundu. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig til þessa og það er auðvitað lang líklegasta niðurstaðan núna. En það er svosem ekki óhugsandi að það spilist úr þessu núna öðruvísi en áður í og með vegna þessara vandræða í Repúblikanaflokknum að þeir sjái bara hag sinn bestan í því að þvinga ríkisstjórnina fram af hengifluginu án þess að vita í rauninni hvað gerist þá," segir Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×