Leikstjórnandinn Gary Payton fer fyrir þeim tólf körfuboltahetjum sem vígðar verða inn í frægðarhöll íþróttarinnar vestanhafs sem kennd er við upphafsmann körfuboltans, James Naismith.
Payton spilaði lengst af ferilsins með Seattle SuperSonics á vesturströnd Bandaríkjanna. Hann þótti mikið efni og var hann afar eftirsóttur í nýliðavalinu árið 1990. Svo fór að SuperSonics, sem hafði annan valrétt valdi hann, og varð hann að goðsögn hjá félaginu.
Payton var valinn varnarmaður ársins í deildinni árið 1996. Það ár fóru Payton og Shawn Kemp á kostum með SuperSonics sem fór alla leið í úrslitaleikinn gegn Chicago Bulls. Payton þótti hafa gott lag á að stöðva Michael Jordan sem þó hafði betur í einvígi þeirra.
Payton fékk uppreisn æru þegar hann varð NBA-meistari með Miami Heat árið 2006 en það var eini titill hans á ferlinum. Hann var valinn í stjörnuliðið níu sinnum og vann gullverðlaun með landsliði Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum árið 1996 og 2000.
Rick Pitino, þjálfari nýkrýndra NCAA-meistara í háskólaliði Louisville, verður einnig vígður í frægðarhöllina. Hinir tíu eru:
Bernard King
Roger Brown
Guy Lewis
E.B. Henderson
Oscar Schimdt
Richard Guerin
Russ Granik
Sylvia Mitchell
Dawn Staley
Jerry Tarkanian
Athöfnin fer fram í september.
Gary Payton í frægðarhöllina

Tengdar fréttir

"Auðvitað fæ ég mér tattú"
74 þúsund áhorfendur troðfylltu Georgia Dome körfuboltahöllina í Atlanta í nótt þegar Louisville Cardinals lagði Michigan Wolverines í úrslitaleik NCAA háskólakörfuboltans.