Innlent

Vorboðinn ljúfi: Fjarlægið nagladekkin fyrir 15. apríl

Það er komið að þeim tíma ársins; bílaeigendur ættu að vera án negldra dekkja í Reykjavík eftir 15. apríl.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg eru ökumenn hvattir til að skipta um hjólbarða sem fyrst og minnt er á að lögreglan hefur heimild til að leggja sekt á hvert nagladekk eftir 15. apríl.

Nagladekk valda bæði loft- og hávaðamengun í borginni með því að spæna upp malbikið og skapa djúp hjólför í það. Enn er leyfilegt að aka á nagladekkjum yfir veturinn en Reykjavíkurborg hefur mörg undanfarin ár mælt gegn notkun þeirra.

Árið 2002 mældust 67% bifreiða á nöglum og 33% á naglalausum hjólbörðum. Þetta hlutfall hefur nú snúist við því í talningu í mars 2013 reyndust 35% bifreiða vera á nöglum en 65% á öðrum dekkjum.

Þetta telja starfsmenn borgarinnar jákvæð tíðindi fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu og sveitarstjórnir þar sem notkun nagladekkja kostar samfélagið mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×