Viðskipti innlent

Áhugi almennings á hlutabréfum eykst

Haraldur Guðmundsson skrifar
Íslensk heimili eiga á milli fimm og sex prósent af hlutabréfamarkaðinum.
Íslensk heimili eiga á milli fimm og sex prósent af hlutabréfamarkaðinum. Fréttablaðið/Stefán
„Hlutafjárútboð N1 staðfestir það sem við höfum séð í öðrum útboðum á árinu að áhugi almennings á hlutabréfamarkaðinum er að aukast og hann er að koma aftur inn á markaðinn,“ segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar.

Mikil umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í N1 í almennu hlutafjárútboði sem lauk síðastliðinn mánudag. Um 7.700 áskriftir bárust og af þeim tilheyrðu 7.200 þátttakendum sem lögðu fram tilboð undir tíu milljónum króna. Eftirspurnin var slík að hámarksúthlutun í síðarnefnda hópnum var 183 þúsund krónur á hverja áskrift.

„Þessi mikli fjöldi, og það hversu lítið kom í hlut hvers og eins, sýnir hvað áhuginn var mikill,“ segir Magnús og bendir á önnur dæmi um mikla eftirspurn í hlutafjárútboðum fyrr á árinu.

Mikil þátttaka er að sögn Magnúsar ekki eina vísbendingin um að almennir fjárfestar sæki í auknum mæli inn á hlutabréfamarkaðinn. Sú þróun sést einnig í tölum um hlutabréfasjóði sem Seðlabanki Íslands tekur saman.

„Þegar maður lítur á verðbréfamarkaðinn í heild þá hafa heimilin fylgt öðrum inn á markaðinn og rúmlega það. Eignir hlutabréfasjóða voru í árslok 2012 rúmlega 38 milljarðar en voru komnar í um 71 milljarð í lok október. Þar af hefur bein eign heimilanna í þessum sjóðum farið úr tæplega níu milljörðum í árslok 2012 í 16,4 milljarða í lok október.“

Bein eignaraðild íslenskra heimila á hlutabréfamarkaðinum er að sögn Magnúsar á milli fimm og sex prósent af heildinni. Árið 2002 var hún um sautján prósent og á mánuðunum fyrir efnahagshrunið um ellefu og hálft prósent.

„Við eigum ennþá svolítið í land ef við ætlum að ná hlutfallinu upp í það sem það var á árunum fyrir hrun og almenningur á töluvert inni.“

Spurður hvort auka þurfi enn frekar trú almennings á hlutabréfamarkaðinum segir Magnús að þar sé enn verk að vinna við að bæta úr áhrifum hrunsins.

„Ég held að menn hafi lært ýmislegt á þeim útboðum sem hafa verið haldin hingað til og menn séu að reyna að vanda sig þar,“ segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×