Viðskipti innlent

Búðarhálslína 1 hefur verið tengd við landsnetið

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Tengivirki Búðarhálslínu. Orkuvirki setti upp háspennubúnað, en Ístak byggði, lagði slóða og smíðaði undirstöður háspennumastra.
Tengivirki Búðarhálslínu. Orkuvirki setti upp háspennubúnað, en Ístak byggði, lagði slóða og smíðaði undirstöður háspennumastra. Mynd/Landsnet
Búðarhálslína 1, sem flytja á raforku frá Búðarhálsvirkjun, hefur verið tengd við meginflutningskerfi Landsnets ásamt nýju tengivirki við Búðarháls.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsneti að raforkuflutningur frá Búðarhálsvirkjun eigi að hefjast í byrjun næsta árs. „Framkvæmdakostnaður við byggingu Búðarhálslínu 1 og tengivirkið er um einn milljarður króna,“ segir þar jafnframt.

Búðarhálslína 1 er 5,6 km löng 220 kílóvolta (kV) háspennulína frá tengivirkinu við Búðarháls að Langöldu þar sem hún er tengd inn á Hrauneyjafosslínu 1 og þar með flutningskerfi Landsnets. Línan var spennusett í fyrsta sinn 10. desember síðastliðinn.

Mat á umhverfisáhrifum línunnar og Búðarhálsvirkjunar fór fram fyrir nokkrum árum og var fallist á framkvæmdina með skilyrðum. Framkvæmdir við verkið hófust svo sumarið 2012 með lagningu vegslóða, vinnu við undirstöður fyrir möstur og byggingu tengivirkishússins.

Síðasta sumar voru háspennumöstrin reist, leiðari línunnar strengdur og lokið við uppsetningu búnaðar í tengivirkinu. „Í sumar verður unnið að lóðarfrágangi við tengivirkið og frágangi á umhverfi og slóðum meðfram línunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×