Viðskipti innlent

Kaupmáttur barnabóta fer minnkandi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir rýrnandi kaupmátt barnabóta og skerðingu við lágmarkslaun koma illa niður á tekjulágum fjölskyldum.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir rýrnandi kaupmátt barnabóta og skerðingu við lágmarkslaun koma illa niður á tekjulágum fjölskyldum. Mynd/Stefán Karlsson
Barnabætur hafa lækkað að raunvirði og kaupmáttur þeirra dregist saman á síðastliðnum sex árum. Þetta kemur fram í samanburði BSRB á verðlagi og upphæð barnabóta.

Kaupmáttur barnabóta hefur lækkað um 22,5 prósent frá árinu 2007. Ef bæturnar myndu haldast óbreyttar á næsta ári hafa þær hækkað um 20 prósent á árunum 2007-2014. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 54,7 prósent, að teknu tilliti til verðbólguspár Hagstofunnar. Verðlag hefur því hækkað umtalsvert umfram hækkun barnabóta.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir einnig tekjuskerðingu á barnabótum vera alltof bratta. Bæturnar eru skertar við 200 þúsund króna mánaðarlaun einstaklings og 400 þúsund krónur hjá sambúðarfólki.

„Hjá BSRB eru lægstu launin 204 þúsund. Þetta þýðir að fólk á lágmarkslaunum verður fyrir skerðingu á barnabótum. Þessar staðreyndir sýna glöggt fram á að heildarendurskoðunar á barnabótakerfinu er þörf. Það getur ekki talist eðlilegt að aðeins þeir sem eru undir lágmarkstekjum fái fullar barnabætur. Það þarf að endurskoða barnabæturnar svo þær geti þjónað tilgangi sínum með betri og skilvirkari hætti en nú er,“ segir Elín Björg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×