Viðskipti innlent

Selt fyrir 4,8 milljarða í N1

Óli Kristján Ármannsson og Samúel Karl Ólason skrifar
280 milljónir hluta fyrir 4.770 milljónir króna voru seldir í almennu útboði hlutabréfa N1 fyrir skráningu félagsins í Kauphöll Íslands. Stefnt er að því að viðskipti með bréfin hefjist í Kauphöll á fimmtudaginn.

„Mikil umframeftirspurn var eftir hlutabréfum N1,“ segir í tilkynningu til kauphallar, en útboðinu lauk síðastliðinn mánudag.

Alls bárust um 7.700 áskriftir. „Útboðið var tvískipt og verða 18 prósent hluta í félaginu seld á 18,01 krónu á hlut í tilboðsbók B en 10 prósent seld á 15,3 krónur á hlut í tilboðsbók A.“

„Það er stjórnendum og starfsfólki N1 mikið ánægjuefni hversu vel fjárfestar hafa tekið félaginu í tengslum við skráningu þess í Kauphöll. Verður hluthafahópur félagsins einn sá fjölmennasti meðal skráðra félaga og eignarhald þess vel dreift á milli almennings og fagfjárfesta. Fyrir hönd N1 býð ég nýja hluthafa velkomna og hlakka til eiga með þeim farsælt samstarf,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, í tilkynningunni.

Seljendur í útboðinu voru Framtakssjóður Íslands og Íslandsbanki, sem ákvað að nýta heimild sína til að stækka útboðið úr 25 prósentum hluta í N1 upp í 28 prósent. Aukningunni var ráðstafað í tilboðsbók B.

„Í október síðastliðnum nýtti hópur fjárfesta rétt sinn á að kaupa 18 prósenta hlut í félaginu af FSÍ og Íslandsbanka. Þessir tveir aðilar hafa því að útboðinu loknu selt samtals 46 prósent hlutafjár í N1 á fjórða ársfjórðungi 2013,“ segir í tilkynningunni.

Íslandsbanki annast framkvæmd útboðsins og mun senda fjárfestum tilkynningu um úthlutun í útboðinu og greiðslufyrirmæli, þegar NASDAQ QMX Iceland hf. staðfestir að hlutabréf N1 verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×