Viðskipti innlent

Aldrei fleiri ferðamenn í nóvembermánuði

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Frá áramótum hafa 739.328 erlendir ferðamenn farið frá landinu, um 120 þúsundum fleiri en á sama tíma í fyrra. Aukningin milli ára nemur 19,5 prósentum.
Frá áramótum hafa 739.328 erlendir ferðamenn farið frá landinu, um 120 þúsundum fleiri en á sama tíma í fyrra. Aukningin milli ára nemur 19,5 prósentum. Fréttablaðið/Þorgils
Í nýbirtum tölum Ferðamálastofu kemur fram að ríflega 46 þúsund erlendir ferðamenn hafi farið frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nóvember, eða um 9.500 fleiri en í sama mánuði í fyrra. Aukningin milli ára nemur 25,7 prósentum.

Í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka segir að hvað erlenda ferðamenn varði hafi síðastliðinn nóvembermánuður verið „langfjölmennasti“ nóvembermánuður frá upphafi mælinga.

„Þetta eru hreint ótrúlegar tölur, og sér í lagi í ljósi þess hversu gríðarlega mikil aukning átti sér stað í nóvember í fyrra á milli ára, eða sem nemur um 61 prósenti,“ segir í umfjöllun Greiningar.

„Þetta þýðir að erlendir ferðamenn voru meira en tvöfalt fleiri í nóvember í ár en í nóvember árið 2011.“

Bent er á að aukninguna í fyrra hafi að hluta til mátt skýra af því að Iceland Airwaves fór fram í nóvember það ár en í október árið 2011. „Sem kunnugt er fór Iceland Ariwaves fram í nóvember í ár líkt og í fyrra.“

Í gögnum Ferðamálastofu er bent á að þótt fjöldatölur geti sveiflast nokkuð milli ára þá sé aukningin frá árinu 2002 að jafnaði 14,3 prósent á milli ára.

Greining Íslandsbanka áréttar að ferðamannatölurnar skipti orðið miklu máli, enda séu umsvif ferðaþjónustunnar í hagkerfinu mun meiri en þau voru áður.

„Er hér nærtækast að benda á tölur Hagstofu Íslands frá því á föstudag sem sýndu að hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins var að miklu leyti drifinn áfram af auknum tekjum í ferðaþjónustu. Einnig má nefna að það sem af er ári nemur þjónustuútflutningur 39 prósentum af heildarútflutningi vöru og þjónustu, en árið 2011 var þetta hlutfall 35 prósent.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×