Gagnrýni

Konur í karlaheimi

Jón Yngvi Jóhannsson skrifar
Stúlka með maga - Þórunn Erlu og Valdimarsdóttir
Stúlka með maga - Þórunn Erlu og Valdimarsdóttir
BÆKUR:

Stúlka með maga

Þórunn Erlu og Valdimarsdóttir

JPV-útgáfa



Þórunn Erlu Valdimarsdóttir hefur jöfnum höndum skrifað sagnfræði og skáldskap allan sinn feril. Hún hefur oft látið reyna á skilin milli þessara tveggja greina og beitt meðulum skáldskaparins í sagnfræðiverkum af meiri dirfsku en flestir kollega hennar. Nýjasta bók hennar, Stúlka með maga, sameinar sagnfræði og skáldskap á nokkuð annan, en ekki síður frumlegan, hátt. Sögumaður bókarinnar, sem ber undirtitilinn „Skáldættarsaga“ er Erla móðir Þórunnar og í sögunni fylgjum við henni á vit fortíðar ættarinnar þar sem hún gramsar í gömlum skjölum og bréfum úr stórum skjalaskáp úr járni.



Á kápu segir að Stúlka með maga sé sjálfstætt framhald Stúlku með fingur, skáldsögu Þórunnar sem kom út árið 1999. En þetta eru mjög ólíkar bækur. Stúlka með fingur er fimlega fléttuð saga úr örlagaþráðum tveggja manneskja, ástarsaga sem leiðir til óvæntrar afhjúpunar í lokin. Í Stúlku með maga er á hinn bóginn sögð saga sem er bæði löng og breið, nær yfir margar kynslóðir karla og kvenna og leikurinn berst víða, bæði landfræðilega og á litrófi tilfinninganna.



Erla segir sögu ættingja sinna, einkum karlanna, allt aftur á fyrri hluta nítjándu aldar. Snemma í sögunni er ýmislegt gefið í skyn um hennar eigin ævi, hjónaband sem lýkur með því að eiginmaðurinn fer frá henni og um ævi foreldra hennar og hjónaband þeirra og samlíf sem frá upphafi er lifað í skugga sjúkdóms sem þau ganga bæði með en má ekki nefna upphátt: sýfilis.

Skáldið „Þeir hlutar sögunnar sem fjalla um konur eru grípandi og stundum nístandi í útmálun sinni á kúgun og óréttlæti ...“ Fréttablaðið/GVA
Undir lokin þéttist sagan um þessi tvö hjónabönd, en áður en að því kemur hefur sögukona þrætt sig í gegnum óhemju magn af frásögnum af forfeðrum sínum. Og sagan sú er saga af sannkölluðu feðraveldi. Þótt samúð hennar sé einatt með konunum í fortíðinni eru þær næstum ósýnilegar í frásögn hennar. Karlarnir eru frekir á athyglina, athafnasemi þeirra hefur skilið eftir sig fleiri spor í skjalasafninu en strit kvennanna og við fáum endalausar sögur af afrekum þeirra, brauðstriti og feilsporum. Því er ekki að leyna að þetta getur reynt töluvert á þolinmæðina hjá lesanda. Einkum er sá hluti sögunnar sem helgaður er föðurafa Erlu, smiðnum og þúsundþjalasmiðnum Alexander Valentínussyni langdreginn og endurtekningasamur, þar er tínt til hvert hús sem hann smíðar og farið í saumana á fjárhag hans og framkvæmdum þannig að manni verður nóg um og finnst stundum eins og maður sé staddur í heimildasafninu miðju en ekki í skáldlegri úrvinnslu úr því.



Í heildarbyggingu sögunnar hefur þessi smásmygli sinn tilgang. Hún sýnir hvernig fókus sögunnar beinist einatt að því sem fært er í bókhald opinberra stofnanna og fyrirtækja og er þannig hluti af femínískri gagnrýni sögukonunnar, en því er ekki að leyna að karlarnir í sögunni skyggja á konurnar lengi vel, þótt maður finni að sögukonan og söguhöfundur telji að konurnar séu meiri athygli verðar.



Stúlka með maga verður þess vegna svolítið köflótt skáldættarsaga. Lokahlutinn og yfirleitt þeir hlutar sögunnar sem fjalla um konur eru grípandi og stundum nístandi í útmálun sinni á kúgun og óréttlæti gamla samfélagsins, en útmálunin á brölti karlanna verður of ítarleg þannig að áhugi lesandans á það til að dala.

Niðurstaða: Áhrifarík ættarsaga af örlögum kvenna, en karlarnir skyggja enn þá á þær, í skáldsögunni eins og í sögunni sjálfri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×