Innlent

Styðja afnám mjólkurkvóta

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Kúabændur anna varla eftirspurn eftir mjólk þessa dagana enda hefur hún aukist um fimmtung á stuttum tíma. Menn telja að vegna þessa sé sögulegt tækifæri til að afnema mjólkurkvóta.
Kúabændur anna varla eftirspurn eftir mjólk þessa dagana enda hefur hún aukist um fimmtung á stuttum tíma. Menn telja að vegna þessa sé sögulegt tækifæri til að afnema mjólkurkvóta. Fréttablaðið/GVA
„Það eru engar hömlur á mjólkurframleiðslu í ár og á næsta ári. Við slíkar aðstæður má segja að kvótakerfið sé að fríhjóla,“ segir Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, og er að vísa til þess að bændur fá fullt verð fyrir alla þá mjólk sem framleidd er umfram kvóta.

Sala á mjólkurafurðum hefur aukist um fimmtung síðustu mánuði.

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra hefur sagt að engin rök séu fyrir því að viðhalda kvótastýringu sem hamli mjólkurframleiðslu við þær aðstæður sem nú ríki. Ráðherra sagði að þetta væri meðal þess sem hann vildi að yrði rætt í tengslum við endurskoðun búvörusamnings sem rennur út 2016.

Sigurður bendir á að þegar skrifað var undir núgildandi búvörusamning hafi mjólkurbændur látið bóka að fram færi grundvallarendurskoðun á kerfinu og þar á meðal kvótakerfinu.

„Nú er sögulegt tækifæri til að fara ofan í þessar forsendur og gera breytingar ef vilji stendur til þess,“ segir Sigurður.

Í sama streng tekur Daði Már Kristófersson hagfræðingur.

„Tækifærið er núna að afnema kvótakerfið eða á meðan bændur ná ekki að framleiða nóg til að mæta þörfum markaðarins,“ segir Daði Már.

„Þetta væri jákvæð breyting og gæti orðið til þess að lækka verð á mjólkurafurðum til neytenda.“

Daði Már segir að kvótasetningin veiti bændum tvenns konar réttindi. Annars vegar réttindi til að selja mjólk á innanlandsmarkaði og hins vegar rétt til beingreiðslna. Hann segir að það væri skynsamlegt að aftengja beingreiðslur við kvótann og um leið verði að afnema opinbera verðmyndun á mjólk.

Um leið og opinber verðmyndun yrði afnumin yrðu stjórnvöld að ákveða hvort stóru fyrirtækin í mjólkuriðnaði, svo sem MS, ættu áfram að njóta undanþágu frá samkeppnislögum. Rökin fyrir undanþágu frá lögunum eru að hið opinbera ráði verðlagningu á mjólkurvörum. Þá verði menn að ákveða hvort það eigi að beita innflutningstollum til að vernda innlenda framleiðslu eða hvort það eigi að afnema tolla.

Hvorki Sigurður né Daði Már telja að mjólkurbændum myndi fjölga þó að kvótakerfið yrði afnumið.

„Það er vannýtt afkastageta í greininni og líkur á að framleiðsluaukningin yrði á þeim búum sem fyrir eru,“ segir Sigurður. Daði Már bendir á að kúabændum fækki um helming á um það bil 20 ára fresti og ef kvótakerfið yrði afnumið gæti það hraðað þeirri þróun tímabundið. Niðurstaðan yrði á endanum aukin hagræðing í greininni

Birna Þorsteinsdóttir
Kvótinn er hugtak ekki eign

„Ef einhvern tíma er tækifæri til að afnema mjólkurkvóta þá er það nú. Þetta er þó ekki einföld aðgerð því allt hangir þetta saman, opinberi stuðningurinn, innflutningsverndin og kvótakerfið,“ segir Birna Þorsteinsdóttir, kúabóndi á Reykjum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Hún segir að þótt bændur hafi fjárfest í mjólkurkvóta skipti það ekki máli. Ef fer sem horfir geti þeir framleitt meira án þess að kosta nokkru til í kvótakaupum. Áhrifin jafnist því út.

„Kvótinn sem slíkur er ekki áþreifanleg eign inni á fasteignamati. Kvótinn er hugtak,“ segir Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×